þriðjudagur, 15. apríl 2008

Mannaveiðar (2008) (TV)

Ég hafði eiginlega engra kosta völ en að horfa á þessa þætti. Ekki einungis vegna þess að Siggi sagði okkur að gera það heldur varð ég að gera það fjölskyldunnar vegna, þar sem Sveinbjörn I. Baldvinsson, handritshöfundur þáttanna (sem og mynda á borð við Foxtrot og Tár úr steini) er föðurbróðir minn.

Ekki það að það hafi þurft að neyða mig til að horfa á þessa þætti.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var ekkert allt of spenntur fyrir þessum þáttum í upphafi. Eins og ég hef svo oft minnst á á íslenskur þátta- og kvikmyndaleikur verið afspyrnugervilegur og síðasta hlutverk Ólafs Darra var ekki gott (Brúðguminn). En fyrsti þátturinn fékk mig til að skipta um skoðun.

Gæsaskyttur fara að hrynja niður hér og þar um landið með högl í andlitinu og lögreglumennirnir Gunnar, feiti sóðinn sem fer óhefðbundnar leiðir í vinnu sinni, og Hinrik, steríliseraði fullkomnunnarsinninn, vinna saman að málinu. Kannski ekki frumlegustu karakterarnir í sjónvarpssögunni, en uppskrift sem virkar. Aðrir karakterar þáttanna eru eiginlega miklu sniðugari: Katrín - mótorhjólasveitabeyglan sem liggur undir grun, Símon - kjánalegi bjáninn sem tekur Dale Carnegie fram yfir rannsókn málsins og danski skotfærasérfræðingurinn sem sést sjaldan (ef nokkurn tímann) án sígarettu í munnvikinu.

Ég nenni eiginlega ekki að fara í söguframvindu þáttanna, sem myndi klárlega brjóta í bága við quantity over quality stílinn minn, þar sem hún var nokkuð pottþétt. Vísbendingar hér og þar berast þeim Gunnari og Hinriki og að sjálfsögðu fá þeir gátur til að leysa, a la The Riddler, því annars deyr einhver. Nokkuð gott, allt saman.

Aftur á móti var ég ekki hrifinn af endinum. Og þess vegna ætla ég að henda upp einum svona gæja:
*SPOILER*


Allt í lagi, ég átti ekki von á því að það væri Jóhann (mig minnir að hann hafi heitið það) fyrr en rátt á undan Hinriki og Gunnari og er sú staðreynd allt í góðu. En ástæðan fyrir morðunum fannst mér kjánaleg. Ok, það virkar alveg þegar hann drap Leif - og það var m.a.s. bara nokkuð töff.
En mér hefur bara alltaf verið illa við „að finna verðugan andstæðing“ ástæðuna. Hún minnir mig bara á vonbrigðin sem ég varð fyrir í t.d. Mindhunters, töff mynd sem klúðraði plot twistinu allsvakalega. Mér finnst hún bara vera svolítið copout.

*SPOILER búinn*

En fyrir utan þennan galla þá eru þetta hinir fínustu þættir. Spennan fín og húmorinn góður („Ég verð alltaf svangur þegar ég sé Borgarnes“ er t.d. æðisleg lína sem mun eflaust lifa lengi). Leikurinn var reyndar svolítið eins og íslenskum leik hættir til að vera, en þó í minni mæli en gjarnan, en ég fékk þó aftur trú á Ólaf Darra sem er mjög skemmtilegur hérna.

Sumsé, þetta eru hinir fínustu þættir og eflaust bestu íslensku spennuþættir sem ég hef séð (taka skal fram að þetta er skoðun mín óháð fjölskyldutengslum og að ég hef ekki séð Pressu).

Fínt stöff.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Fín færsla. 6 stig.
Ég er nokkurn veginn sammála varðandi endann. Ef Jóhann var svona mikill spennufíkill, þá ætti stærsti hlutinn af þessu að vera koma sér í hættu, ekki satt? En þegar hann ræðst nokkurn veginn fyrirvaralaust að mönnum, eins og hann virðist gera, þá er það varla það spennandi (svona miðað við leikinn við Leif, a.m.k.).