þriðjudagur, 15. apríl 2008

Twofer!

Og þá á ég ekki við svarta Harvard nördinn í snilldinni 30 Rock, heldur "two-for-one" færslu um tvær myndir sem horft var á í bíótímunum merkilegu, hverja ég komst eiginlega aldrei í. En á þeim lista voru tvær myndir sem ég hafði séð löngu fyrir tímann og koma hér því tvær stuttar umfjallanir um hvora fyrir sig (gildir það kannski sem mæting líka?).

Some Like It Hot (1959)
Ég man ekki alveg hvað það var sem fékk mig til að horfa á þessa mynd á sínum tíma því þegar ég sá hana stóð ég í þeirri trú að svarthvítar myndir svæfðu mig. Það var reyndar mjög gjarnan raunin. En það hafa líklega verið meðmæli frænda míns (sem nú er í námi við MFA kvikmyndadeildina í Columbia University í New York - vei) sem urðu þess valdandi að ég fékk myndina lánaða hjá honum og horfði á hana einhvern daginn. Ég sá ekki eftir því.

Þessi hugmynd er bara svo pottþétt og svo frábærlega framkvæmd að það er engin furða að hún sé á top 100 á IMDB:
Jerry (Jack Lemmon) og Joe (Tony Curtis) eru tveir fátækir tónlistarmenn sem verða vitni að mafíuárás og flýja því borgina. Eða réttara sagt Joe og Jerry hverfa sporlaust en Josephine og Daphne flýja borgina með kvennahljómsveit sem inniheldur kynbombuna og glæsikvendið Sugar Kane Kowalczyk (Marilyn Monroe). Ekki batna aðstæðurnar þegar Josephine/Joe fellur fyrir Sugar Kane og ríkisbubbinn Osgood Fielding fellur fyrir Daphne. Í kjölfarið fylgja farsakenndar uppákomur og hlægilega spennandi atriði þar sem Daphne og Josephine gera allt hvað „þær“ geta til að halda Jerry og Joe í felum.

Síðan hefur þessi hugmynd gjarnan verið notuð, t.d. í myndum eins og viðbjóðnum Sorority Boys og saurslettunni Juwanna Mann. Mrs. Doubtfire notast reyndar líka við þessa grunnhugmynd en tekst öllu betur upp en hinum tveimur sem ég stefni á að reyna að komast hjá að nefna á nafn, nokkurn tímann aftur.

Ég man að ég var ekkert ofboðslega hrifinn af Marilyn Monroe í þessari mynd, hvorki sem leikkonu né kyntákni (skilgreiningin á 'sexy' hefur breyst aðeins síðan 1959), en Jack Lemmon og Tony Curtis aftur á móti fannst mér frábærir. Og þá sérstaklega Jack Lemmon - sem er einn fremsti gamanleikari sögunnar.

En ég er frænda mínum ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið mig til að afsanna svarthvítu svefnkenninguna og ég vil biðja hvern þann sem tókst að sofna yfir þessari mynd að tala við mig svo ég geti hunsað hann og virt hann ekki viðlits.

* * * * af 5.

Oldboy (2003)
Ég hef lofsamað Oldboy á þessu bloggi áður og það er ærin ástæða fyrir því að hún er á topp 10 listanum mínum. Hún er einfaldlega svo ógeðslega góð!
Ég man ennþá eftir því þegar ég sá hana fyrst - tók hana í algjörri blindni á leigu því að „ekkert betra“ var til. Það varð reyndar furðulega satt, þar sem það var bókstaflega ekkert betra til og er ekki enn (með örfáum undantekningum).

Oh Dae-Su er rænt eitt kvöldið eftir massívt fyllerí og vaknar í læstu herbergi úr hverju er engin undankomuleið. Þar vaknar hann svo næstu 5475 morgna (námundun) þegar hann er skyndilega látin laus. Hann fær aldrei útskýringu á þessu en ákveður (eðlilega) að reyna að komast að því. Og hefst þá ein magnaðasta, flottasta og truflaðasta kvikmyndaupplifun mín.

Ég elska allt lúkk á myndinni og sum skotin og atriðin eru einfaldlega stórglæsileg (líkt og í öllum Chan-wook Park myndum sem ég hef séð). Til dæmis er í henni eitt flottasta bardagaatriði sem ég hef nokkurn tímann á ævi minni séð:

Það sem gerir þetta svona fokking geðveikt atriði er:
1. Það er allt í einni helvítis töku.
2. Hann er einn á móti sjittlód af gaurum.
3. Hann er laminn í klessu sjálfur - enda gæti enginn farið skrámulaust í gegnum svona hóp! ...nema Batman.
4. Hljóðið er geðveikt og laust við þetta Hollywood "DÚSHJ" hljóð. Kóresk andlit hljóta að vera úr öðru efni en Hollywood andlit.
5. Lagið er klikkað (The Old Boy eftir Yeong-wook Jo og já, ég á sándtrakkið).
6. Hann er bara svo fokk harður.

Myndin er, eins og klippið fyrir ofan gefur til kynna, frekar brútal, en það þjónar þó tilgangi, ólíkt myndum eins og Saw III og IV og Hostel dúettinum. Maður áttar sig bara á því hve mikið Oh Dae-Su hatar fangara sína þegar hann rífur tennurnar úr einum þeirra með hamri og hve mikið hann hatar svo sjálfan sig þegar hann sker úr sér tunguna. Eins og Chan-wook Park segir sjálfur:
"I have principles and rules. I deal very carefully with acts of violence and make sure that audiences understand how much suffering these acts cause."
En það er líka eitt sem Oldboy gerði mér sem ég er gríðarlega þakklátur fyrir: hún opnaði nýjan heim kvikmynda fyrir mér. Það var Oldboy sem kveikti það ljós í hausnum á mér að það eru til ógeðslega mikið af æðislegum myndum utan Bandaríkjanna. Þess vegna hef ég horft á myndir eins og Cidade De Deus, Tsotsi, Pan's Labyrinth, fjórar Chan-wook Park myndir í viðbót o.fl. o.fl. Það er reyndar óheppilegt að eiga vini (eða vin, öllu heldur) sem neitar að horfa á og hefur enga trú á myndum sem ekki eru á ensku. En það er bara eitt af takmörkum mínum í lífinu - að opna augun á viðkomandi einstakling.

En Oldboy er sumsé ekkert nema tær snilld og ef einhver á eftir að upplifa þetta meistaraverk þá hefur ekki kynnst kvikmyndaheiminum til fulls.

* * * * * + af 5

2 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Flott færsla. 6½ stig.

Góður punktur: "...hún opnaði nýjan heim kvikmynda fyrir mér. Það var Oldboy sem kveikti það ljós í hausnum á mér að það eru til ógeðslega mikið af æðislegum myndum utan Bandaríkjanna." Það er fátt verðmætara en sú uppljómun þegar maður áttar sig á að nýlegar Hollywood myndir eru bara brotabrot af þeim gæðamyndum sem eru gerðar og hafa verið gerðar. Þegar maður áttar sig á því að utan Bandaríkjanna, og fyrir 1970, er heill hafsjór af frábærum myndum.

Siggi Palli sagði...

Úbbs! Fattaði ekki að Some Like It Hot og Oldboy var ein færsla. 10 stig.