Ég fór til Minneapolis og Vancouver í páskafríinu og eins og alvöru Íslendingur fór ég berserksgang í sparnaði með því að kaupa sjittlód af DVD-myndum (ein 12 stykki) því þær eru á mun lægra verði þar en hér.
1. Aladdin (1992)
Ég hef lengi leitað að þessari mynd vegna nostalgíunnar einnar. Það hefði reyndar verið best hefði ég fundið hana á Íslandi með íslenskri talsetningu, því íslenska talsetningin á Aladdin er ein best heppnaða talsetning íslandssögunnar. En maður verður víst bara að „sætta sig við“ frábæra teiknimynd á móðurmáli sínu.
Ég er reyndar ekki enn búinn að horfa á DVD-diskinn en ég er búinn að hlusta á lögin úr henni svo oft að ég kann þau flest öll, enda er Alan Menken ekkert nema snillingur.
Úff, hvað ég hlakka samt til að horfa á þessa snilld aftur.
2. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain (2001)
Ein af myndunum í top 10 listanum mínum og hálfgerður skandall að ég skuli ekki hafa útvegað mér þessa mynd fyrr. Hún er bara svo sæt og falleg og flott og skemmtileg að það er eiginlega ósanngjarnt gagnvart öðrum rómantískum myndum.
3. Austin Powers: International Man of Mystery (1997)
Fyndnasta hlutverk Mike Myers ever (já, fyndnara en Shrek) og líkt og allir kvenkarakterar myndarinnar stenst ég ekki sjarmatröllið sem Austin „Danger“ Powers er. Það eru svo mörg frábær atriði í þessari mynd að það er aðdáunarvert. Til dæmis:
•Dr. Evil sturtar Will Ferrell karakternum ofan í eldgryfjuna en Will Ferrell neitar að deyja. Yndislegt.
•Austin situr fastur á litlum tour-bíl í göngum en reynir samt að snúa bílnum við.
•„Shh!“ senan þegar Dr. Evil er að þagga niður í Scott, syni sínum.
Svo mætti halda lengi áfram.
4. Dan in Real Life (2007)
Steve Carell á sinn besta leik til þessa í yndislega pínlegri en fallegri ástarsögu. Dan verður óvart ástfanginn af kærustu bróður síns, sem er sérstaklega vandræðalegt þar sem öll stórfjölskyldan er saman uppi í sumarbústað. Maður finnur svo til með Dan að það verður hálferfitt að horfa á myndina á köflum.
Krúttlegasta mynd síðasta árs.
5. Death Proof (2007)
Ég keypti hana bara því hún var á svona „2 for 25$“ tilboði og mig langaði að sjá hana. Ég hef ekki enn gert það svo ég hef ekkert um þessa mynd að segja.
6. Fargo (1996)
Frábær mynd úr smiðju Coen bræðra og jafnframt sú næstbesta (rétt á eftir No Country For Old Men en rétt fyrir framan The Big Lebowsky og O Brother, Where Art Thou?). Húmorinn og spennan og viðbjóðurinn er í fullkomnu jafnvægi að skapar frábæra blöndu sem fáir (ef nokkur) hefur náð að leika eftir. Frances McDormand og William H. Macy eru æði og Steve Buscemi útskýrir enn einu sinni af hverju hann er minn uppáhaldsleikari.
7. Hot Fuzz (2007)
Næstfyndnasta mynd síðasta árs og önnur æðislega stór fjöður í hatt Simon Pegg og Nick Frost, en sú fyrri er að sjálfsögðu Shaun of the Dead. Frábær leikur, snilldarhúmor og verulega töff klipping gera þessa mynd afskaplega eigulega.
8. No Country For Old Men (2007)
Ein besta mynd sem ég hef séð.
Enough said.
9. Oldboy (2003)
Loksins, loksins, loksins fann ég hana. Ég hef aldrei kippt DVD-mynd jafnhratt úr nokkurri hillu fyrr en þarna (fyrir utan Garden State hulstrið á sínum tíma). En fyrir frekari lof á myndinni sjá færslu fyrir neðan.
10. Ratatouille (2007)
Keypti hana aðallega því við eigum allar fyrri Pixar myndir á DVD og það er ekki hægt að hætta að safna þeim. Sérstaklega ekki þar sem Ratatouille er æðisleg.
11. Saw (2004)
Klárlega langbesta Saw myndin. Ég man að ég fékk boðsmiða á forsýningu á henni í tilefni af opnun nýja salarins í Laugarásbíói og ég held ég hafi aldrei hlakkað jafn mikið til að fara í bíó og á þessa mynd. Ég hafði bara séð trailerinn og heyrt talað um hana, en það var nóg. Mér fannst þetta bara svo heillandi concept. Jafnast á við Se7en nema hvað Danny Glover, Cary Elwes og Michael Emerson jafnast ekkert á við Morgan Freeman, Kevin Spacey og Brad Pitt.
Samt sem áður æðisleg mynd.
12. 1991 (1991)
Besta mynd Arnold Schwarzenegger fyrr og síðar og ein besta spennumynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Það er bara svo einfalt.
(Til gamans má geta að Adam Jones, gítarleikari hljómsveitarinnar Tool, vann að tæknibrellum við T2. Gaman að því.)
Þannig að... já. Þetta voru á annað hundrað dollarar, en öllum vel eytt, held ég.
P.S. Guð minn góður... 4 færslur á einu kvöldi... ég ætti að fara að leggja mig.
þriðjudagur, 15. apríl 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Fín færsla. Þú ert greinilega orðinn eitthvað þreyttur þegar T2 heitir allt í einu 1991. 7 stig.
Fátt skemmtilegra en að versla DVD-myndir þar sem þær eru ódýrari. Í þau fáu skipti sem ég kemst í þessar aðstæður fer ég langt með að missa vitið, og það telst til undantekninga ef innkaupin fara ekki yfir 20 stykkin...
En það minnir mig á eitt: aumingjaskap Smáís. Þegar ríkisstjórnin lækkaði virðisaukann á bókum og matvöru fyrir tveimur(?) árum síðan, þá sáu þeir sem flytja inn tónlist sér leik á borði og börðust hart fyrir því að virðisaukinn og tollurinn á geisladiskum yrði lækkaður, sem var gert. Maður hlýtur að spyrja sig hvað Smáís var að gera þá, því hver eru eiginlega rökin fyrir því að við séum að borga 35% til ríkisins af hverri DVD-mynd (24,5% vsk. og 10% toll) en bara 7% eða 17% af hverjum geisladisk (ég er ekki viss um að tollurinn hafi verið lagður niður). Það væri t.d. ólíkt skemmtilegra að panta myndir á netinu ef maður þyrfti ekki að borga auka 35% við móttöku (plús 450kr. fyrir að láta rukka mann), auk þess sem maður myndi jafnvel kaupa fleiri DVD-myndir hér heima. Ég hef enga samúð með myndrétthöfum yfir þessu ímyndaða tapi sem þeir verða fyrir vegna niðurhals, þegar þeir geta ekki gætt eigin hagsmuna betur en þetta.
Skrifa ummæli