miðvikudagur, 16. apríl 2008

Kvikmyndagerð

Ég er ekki frá því að þetta sé eitt skemmtilegasta fag sem ég hef verið í alveg síðan ég veit ekki hvenær, og það er eiginlega hálfgerð synd að það sé að klárast. T.a.m. er heimavinnan sú skemmtilegasta sem ég hef kynnst. Mér finnst afskaplega skemmtileg tilhugsun að ég sé að læra heima fyrir morgundaginn núna - því þetta virkar voðalega lítil kvöð. Mér fannst þetta bloggdæmi allt saman talsverð kvöð fyrir áramót, en þá var ég eiginlega ekki búinn að gera mér grein fyrir því hvernig átti að gera þetta skemmtilegt. Og það var auðvelt: Að gera það vel.
Það er mjög gaman að líta yfir nýskrifaða, langa og skrautlega færslu og er það eflaust hinu nýja stigakerfi að þakka, þar sem það kom af stað eins og smá keppni. Ef ekki við aðra nemendur, þá a.m.k. við sjálfan - að toppa færsluna á undan.

Og það færir mig að einu því besta við þennan kúrs: frelsið og áhrifin sem við getum sjálfir haft á efnið. Stigakerfið er besta dæmið um það. Margir voru ekki alveg sáttir við 30 færslu lágmarkið og eftir miklar um- og rökræður gátum við breytt því í sameiningu. Allir glaðir!

Ég á afskaplega erfitt með að tjá mig um bíótímana í sjálfu sér, þar sem ég komst ekki í nema 2 þeirra (The General og American Movie), en myndirnar sem ég náði að vinna upp voru fjölbreyttar, framandi og oftast nær verulega góðar og kynntu mann fyrir myndum sem maður myndi venjulega aldrei hafa horft á. Þar koma inn í myndirnar sem fylgdu leikstjórafyrirlestrunum. Ég get ekki sagt að ég hefði nokkurn tímann leigt mér japanskt drama um konu sem yfirgefur börnin sín í Tokyo eða belgíska mockumentary um fjöldamorðingja. En ég er svo ánægður að hafa séð þessar myndir.

Leikstjóraheimsóknirnar voru líka afskaplega fróðlegar og skemmtilegar, þó sumar hafi verið skemmtilegri en aðrar (Óli de Fleur hefur þar vinninginn).

Það eina sem ég gæti gagnrýnt eitthvað að ráði er lokaprófið. Það er bara fáránlegt að taka lokapróf sem gildir 50% úr áfanga sem inniheldur svo lítið bóklegt efni. Þess vegna vona ég, tilvonandi nemenda vegna, að það verði hægt að breyta þessu eitthvað á næstu árum, því ef ekki væri fyrir þetta kjánalega lokapróf þá væri þetta hið fullkomna fag.
...eða því sem næst.

Takk fyrir frábæran vetur.

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Innkaup

Ég fór til Minneapolis og Vancouver í páskafríinu og eins og alvöru Íslendingur fór ég berserksgang í sparnaði með því að kaupa sjittlód af DVD-myndum (ein 12 stykki) því þær eru á mun lægra verði þar en hér.

1. Aladdin (1992)
Ég hef lengi leitað að þessari mynd vegna nostalgíunnar einnar. Það hefði reyndar verið best hefði ég fundið hana á Íslandi með íslenskri talsetningu, því íslenska talsetningin á Aladdin er ein best heppnaða talsetning íslandssögunnar. En maður verður víst bara að „sætta sig við“ frábæra teiknimynd á móðurmáli sínu.
Ég er reyndar ekki enn búinn að horfa á DVD-diskinn en ég er búinn að hlusta á lögin úr henni svo oft að ég kann þau flest öll, enda er Alan Menken ekkert nema snillingur.

Úff, hvað ég hlakka samt til að horfa á þessa snilld aftur.

2. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain (2001)
Ein af myndunum í top 10 listanum mínum og hálfgerður skandall að ég skuli ekki hafa útvegað mér þessa mynd fyrr. Hún er bara svo sæt og falleg og flott og skemmtileg að það er eiginlega ósanngjarnt gagnvart öðrum rómantískum myndum.

3. Austin Powers: International Man of Mystery (1997)
Fyndnasta hlutverk Mike Myers ever (já, fyndnara en Shrek) og líkt og allir kvenkarakterar myndarinnar stenst ég ekki sjarmatröllið sem Austin „Danger“ Powers er. Það eru svo mörg frábær atriði í þessari mynd að það er aðdáunarvert. Til dæmis:
•Dr. Evil sturtar Will Ferrell karakternum ofan í eldgryfjuna en Will Ferrell neitar að deyja. Yndislegt.
•Austin situr fastur á litlum tour-bíl í göngum en reynir samt að snúa bílnum við.
•„Shh!“ senan þegar Dr. Evil er að þagga niður í Scott, syni sínum.
Svo mætti halda lengi áfram.

4. Dan in Real Life (2007)
Steve Carell á sinn besta leik til þessa í yndislega pínlegri en fallegri ástarsögu. Dan verður óvart ástfanginn af kærustu bróður síns, sem er sérstaklega vandræðalegt þar sem öll stórfjölskyldan er saman uppi í sumarbústað. Maður finnur svo til með Dan að það verður hálferfitt að horfa á myndina á köflum.
Krúttlegasta mynd síðasta árs.

5. Death Proof (2007)
Ég keypti hana bara því hún var á svona „2 for 25$“ tilboði og mig langaði að sjá hana. Ég hef ekki enn gert það svo ég hef ekkert um þessa mynd að segja.

6. Fargo (1996)
Frábær mynd úr smiðju Coen bræðra og jafnframt sú næstbesta (rétt á eftir No Country For Old Men en rétt fyrir framan The Big Lebowsky og O Brother, Where Art Thou?). Húmorinn og spennan og viðbjóðurinn er í fullkomnu jafnvægi að skapar frábæra blöndu sem fáir (ef nokkur) hefur náð að leika eftir. Frances McDormand og William H. Macy eru æði og Steve Buscemi útskýrir enn einu sinni af hverju hann er minn uppáhaldsleikari.

7. Hot Fuzz (2007)
Næstfyndnasta mynd síðasta árs og önnur æðislega stór fjöður í hatt Simon Pegg og Nick Frost, en sú fyrri er að sjálfsögðu Shaun of the Dead. Frábær leikur, snilldarhúmor og verulega töff klipping gera þessa mynd afskaplega eigulega.

8. No Country For Old Men (2007)
Ein besta mynd sem ég hef séð.
Enough said.

9. Oldboy (2003)
Loksins, loksins, loksins fann ég hana. Ég hef aldrei kippt DVD-mynd jafnhratt úr nokkurri hillu fyrr en þarna (fyrir utan Garden State hulstrið á sínum tíma). En fyrir frekari lof á myndinni sjá færslu fyrir neðan.

10. Ratatouille (2007)
Keypti hana aðallega því við eigum allar fyrri Pixar myndir á DVD og það er ekki hægt að hætta að safna þeim. Sérstaklega ekki þar sem Ratatouille er æðisleg.

11. Saw (2004)
Klárlega langbesta Saw myndin. Ég man að ég fékk boðsmiða á forsýningu á henni í tilefni af opnun nýja salarins í Laugarásbíói og ég held ég hafi aldrei hlakkað jafn mikið til að fara í bíó og á þessa mynd. Ég hafði bara séð trailerinn og heyrt talað um hana, en það var nóg. Mér fannst þetta bara svo heillandi concept. Jafnast á við Se7en nema hvað Danny Glover, Cary Elwes og Michael Emerson jafnast ekkert á við Morgan Freeman, Kevin Spacey og Brad Pitt.
Samt sem áður æðisleg mynd.

12. 1991 (1991)
Besta mynd Arnold Schwarzenegger fyrr og síðar og ein besta spennumynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Það er bara svo einfalt.
(Til gamans má geta að Adam Jones, gítarleikari hljómsveitarinnar Tool, vann að tæknibrellum við T2. Gaman að því.)

Þannig að... já. Þetta voru á annað hundrað dollarar, en öllum vel eytt, held ég.

P.S. Guð minn góður... 4 færslur á einu kvöldi... ég ætti að fara að leggja mig.

Twofer!

Og þá á ég ekki við svarta Harvard nördinn í snilldinni 30 Rock, heldur "two-for-one" færslu um tvær myndir sem horft var á í bíótímunum merkilegu, hverja ég komst eiginlega aldrei í. En á þeim lista voru tvær myndir sem ég hafði séð löngu fyrir tímann og koma hér því tvær stuttar umfjallanir um hvora fyrir sig (gildir það kannski sem mæting líka?).

Some Like It Hot (1959)
Ég man ekki alveg hvað það var sem fékk mig til að horfa á þessa mynd á sínum tíma því þegar ég sá hana stóð ég í þeirri trú að svarthvítar myndir svæfðu mig. Það var reyndar mjög gjarnan raunin. En það hafa líklega verið meðmæli frænda míns (sem nú er í námi við MFA kvikmyndadeildina í Columbia University í New York - vei) sem urðu þess valdandi að ég fékk myndina lánaða hjá honum og horfði á hana einhvern daginn. Ég sá ekki eftir því.

Þessi hugmynd er bara svo pottþétt og svo frábærlega framkvæmd að það er engin furða að hún sé á top 100 á IMDB:
Jerry (Jack Lemmon) og Joe (Tony Curtis) eru tveir fátækir tónlistarmenn sem verða vitni að mafíuárás og flýja því borgina. Eða réttara sagt Joe og Jerry hverfa sporlaust en Josephine og Daphne flýja borgina með kvennahljómsveit sem inniheldur kynbombuna og glæsikvendið Sugar Kane Kowalczyk (Marilyn Monroe). Ekki batna aðstæðurnar þegar Josephine/Joe fellur fyrir Sugar Kane og ríkisbubbinn Osgood Fielding fellur fyrir Daphne. Í kjölfarið fylgja farsakenndar uppákomur og hlægilega spennandi atriði þar sem Daphne og Josephine gera allt hvað „þær“ geta til að halda Jerry og Joe í felum.

Síðan hefur þessi hugmynd gjarnan verið notuð, t.d. í myndum eins og viðbjóðnum Sorority Boys og saurslettunni Juwanna Mann. Mrs. Doubtfire notast reyndar líka við þessa grunnhugmynd en tekst öllu betur upp en hinum tveimur sem ég stefni á að reyna að komast hjá að nefna á nafn, nokkurn tímann aftur.

Ég man að ég var ekkert ofboðslega hrifinn af Marilyn Monroe í þessari mynd, hvorki sem leikkonu né kyntákni (skilgreiningin á 'sexy' hefur breyst aðeins síðan 1959), en Jack Lemmon og Tony Curtis aftur á móti fannst mér frábærir. Og þá sérstaklega Jack Lemmon - sem er einn fremsti gamanleikari sögunnar.

En ég er frænda mínum ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið mig til að afsanna svarthvítu svefnkenninguna og ég vil biðja hvern þann sem tókst að sofna yfir þessari mynd að tala við mig svo ég geti hunsað hann og virt hann ekki viðlits.

* * * * af 5.

Oldboy (2003)
Ég hef lofsamað Oldboy á þessu bloggi áður og það er ærin ástæða fyrir því að hún er á topp 10 listanum mínum. Hún er einfaldlega svo ógeðslega góð!
Ég man ennþá eftir því þegar ég sá hana fyrst - tók hana í algjörri blindni á leigu því að „ekkert betra“ var til. Það varð reyndar furðulega satt, þar sem það var bókstaflega ekkert betra til og er ekki enn (með örfáum undantekningum).

Oh Dae-Su er rænt eitt kvöldið eftir massívt fyllerí og vaknar í læstu herbergi úr hverju er engin undankomuleið. Þar vaknar hann svo næstu 5475 morgna (námundun) þegar hann er skyndilega látin laus. Hann fær aldrei útskýringu á þessu en ákveður (eðlilega) að reyna að komast að því. Og hefst þá ein magnaðasta, flottasta og truflaðasta kvikmyndaupplifun mín.

Ég elska allt lúkk á myndinni og sum skotin og atriðin eru einfaldlega stórglæsileg (líkt og í öllum Chan-wook Park myndum sem ég hef séð). Til dæmis er í henni eitt flottasta bardagaatriði sem ég hef nokkurn tímann á ævi minni séð:

Það sem gerir þetta svona fokking geðveikt atriði er:
1. Það er allt í einni helvítis töku.
2. Hann er einn á móti sjittlód af gaurum.
3. Hann er laminn í klessu sjálfur - enda gæti enginn farið skrámulaust í gegnum svona hóp! ...nema Batman.
4. Hljóðið er geðveikt og laust við þetta Hollywood "DÚSHJ" hljóð. Kóresk andlit hljóta að vera úr öðru efni en Hollywood andlit.
5. Lagið er klikkað (The Old Boy eftir Yeong-wook Jo og já, ég á sándtrakkið).
6. Hann er bara svo fokk harður.

Myndin er, eins og klippið fyrir ofan gefur til kynna, frekar brútal, en það þjónar þó tilgangi, ólíkt myndum eins og Saw III og IV og Hostel dúettinum. Maður áttar sig bara á því hve mikið Oh Dae-Su hatar fangara sína þegar hann rífur tennurnar úr einum þeirra með hamri og hve mikið hann hatar svo sjálfan sig þegar hann sker úr sér tunguna. Eins og Chan-wook Park segir sjálfur:
"I have principles and rules. I deal very carefully with acts of violence and make sure that audiences understand how much suffering these acts cause."
En það er líka eitt sem Oldboy gerði mér sem ég er gríðarlega þakklátur fyrir: hún opnaði nýjan heim kvikmynda fyrir mér. Það var Oldboy sem kveikti það ljós í hausnum á mér að það eru til ógeðslega mikið af æðislegum myndum utan Bandaríkjanna. Þess vegna hef ég horft á myndir eins og Cidade De Deus, Tsotsi, Pan's Labyrinth, fjórar Chan-wook Park myndir í viðbót o.fl. o.fl. Það er reyndar óheppilegt að eiga vini (eða vin, öllu heldur) sem neitar að horfa á og hefur enga trú á myndum sem ekki eru á ensku. En það er bara eitt af takmörkum mínum í lífinu - að opna augun á viðkomandi einstakling.

En Oldboy er sumsé ekkert nema tær snilld og ef einhver á eftir að upplifa þetta meistaraverk þá hefur ekki kynnst kvikmyndaheiminum til fulls.

* * * * * + af 5

Mannaveiðar (2008) (TV)

Ég hafði eiginlega engra kosta völ en að horfa á þessa þætti. Ekki einungis vegna þess að Siggi sagði okkur að gera það heldur varð ég að gera það fjölskyldunnar vegna, þar sem Sveinbjörn I. Baldvinsson, handritshöfundur þáttanna (sem og mynda á borð við Foxtrot og Tár úr steini) er föðurbróðir minn.

Ekki það að það hafi þurft að neyða mig til að horfa á þessa þætti.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var ekkert allt of spenntur fyrir þessum þáttum í upphafi. Eins og ég hef svo oft minnst á á íslenskur þátta- og kvikmyndaleikur verið afspyrnugervilegur og síðasta hlutverk Ólafs Darra var ekki gott (Brúðguminn). En fyrsti þátturinn fékk mig til að skipta um skoðun.

Gæsaskyttur fara að hrynja niður hér og þar um landið með högl í andlitinu og lögreglumennirnir Gunnar, feiti sóðinn sem fer óhefðbundnar leiðir í vinnu sinni, og Hinrik, steríliseraði fullkomnunnarsinninn, vinna saman að málinu. Kannski ekki frumlegustu karakterarnir í sjónvarpssögunni, en uppskrift sem virkar. Aðrir karakterar þáttanna eru eiginlega miklu sniðugari: Katrín - mótorhjólasveitabeyglan sem liggur undir grun, Símon - kjánalegi bjáninn sem tekur Dale Carnegie fram yfir rannsókn málsins og danski skotfærasérfræðingurinn sem sést sjaldan (ef nokkurn tímann) án sígarettu í munnvikinu.

Ég nenni eiginlega ekki að fara í söguframvindu þáttanna, sem myndi klárlega brjóta í bága við quantity over quality stílinn minn, þar sem hún var nokkuð pottþétt. Vísbendingar hér og þar berast þeim Gunnari og Hinriki og að sjálfsögðu fá þeir gátur til að leysa, a la The Riddler, því annars deyr einhver. Nokkuð gott, allt saman.

Aftur á móti var ég ekki hrifinn af endinum. Og þess vegna ætla ég að henda upp einum svona gæja:
*SPOILER*


Allt í lagi, ég átti ekki von á því að það væri Jóhann (mig minnir að hann hafi heitið það) fyrr en rátt á undan Hinriki og Gunnari og er sú staðreynd allt í góðu. En ástæðan fyrir morðunum fannst mér kjánaleg. Ok, það virkar alveg þegar hann drap Leif - og það var m.a.s. bara nokkuð töff.
En mér hefur bara alltaf verið illa við „að finna verðugan andstæðing“ ástæðuna. Hún minnir mig bara á vonbrigðin sem ég varð fyrir í t.d. Mindhunters, töff mynd sem klúðraði plot twistinu allsvakalega. Mér finnst hún bara vera svolítið copout.

*SPOILER búinn*

En fyrir utan þennan galla þá eru þetta hinir fínustu þættir. Spennan fín og húmorinn góður („Ég verð alltaf svangur þegar ég sé Borgarnes“ er t.d. æðisleg lína sem mun eflaust lifa lengi). Leikurinn var reyndar svolítið eins og íslenskum leik hættir til að vera, en þó í minni mæli en gjarnan, en ég fékk þó aftur trú á Ólaf Darra sem er mjög skemmtilegur hérna.

Sumsé, þetta eru hinir fínustu þættir og eflaust bestu íslensku spennuþættir sem ég hef séð (taka skal fram að þetta er skoðun mín óháð fjölskyldutengslum og að ég hef ekki séð Pressu).

Fínt stöff.

Stóra planið (2008)

Þegar ég fór á myndina var ég orðinn pirraður áður en ég var sestur niður, en ekki út í myndina eða aðstandendur hennar, heldur kvikmyndahúsið. 1300 kall fyrir bíó er sjúklega mikið. Nánast jafn dýrt og bensínkostnaðurinn við að koma sér þangað - ZING.

En hvað um það, maður sér ekki eftir peningnum þegar maður horfir á hágæðamynd - sem Stóra planið var ekki.

Ég viðurkenni reyndar að hún var eiginlega algjörlega laus við hinn einkennandi skelfilega íslenska kvikmyndaleik. Langflest samtölin flæddu frekar vel og virkuðu mjög eðlileg. Enda, eins og Ólafur „de Fleur“ Jóhannesson sagði (sem var btw frábær heimsókn - sú besta hingað til), voru leikararnir meira og minna að spinna samtölin sín á milli. Það er greinilega the way to go fyrir íslenskan kvikmyndaleik, því þessi klassíski skelfilegi er oft hreint út sagt pínlegur.

Stóra planið segir frá Davíð (Pétur Jóhann Sigfússon), gjörsamlega misheppnuðum handrukkara, sem verður skyndilega bigshot þegar hann kynnist Haraldi Haraldssyni (Eggert Þorleifsson), alræmdum fyrrverandi glæpaforingja Íslands. En þegar líða tekur á samband þeirra Davíðs og Haralds fara mál að flækjast og teygja sig allt til æsku Davíðs þegar keyrt var á bróður hans.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Eggert Þorleifsson er einn fyndnasti og besti gamanleikari íslensku þjóðarinnar og þessi mynd breytir þeirri skoðun ekkert. Hann fer afar vel með hlutverk sitt sem hinn stórskemmdi og kengruglaði Haraldur.
Til að mynda er atriðið á bílaþvottaplaninu algjörlega óborganlegt og það er örugglega ekki margir aðrir en Eggert sem gætu gert það jafn fyndið og raun bar vitni.

Pétur Jóhann kemur líka sterkur inn, enda vann hann sig mjög hátt upp í virðingarstiga mínum í Næturvaktinni (þó ekki eins hátt og Jón Gnarr, en það er efni í aðra færslu). Davíð er ekkert allt of ólíkur Ólafi Ragnar heldur - báðir óttalegir lúserar sem trúa í blindni á það að þeir verði loksins eitthvað. Benedikt Erlingsson og Ingvar E. eru líka pottþéttir eins og ávallt, sem og Stefan C. Schaefer sem hinn yndislegi og kjánalegi Wolfi, sem kom mér skemmtilegast á óvart.

Myndin byrjar nokkuð skemmtilega (burtséð frá ákeyrslunni, sem var sjokkerandi og furðulega brútal miðað við íslenskan klassa) og heldur fínum dampi fram að hléi (sem ég hata svo innilega ennþá, btw). En eftir hlé kárnaði gamanið. Jú jú, brandararnir voru ennþá til staðar en myndin varð bara eitthvað svo stefnulaus og máttlaus. Maður vissi einhvern veginn ekkert hvað hafði gerst, hvað var að gerast og hvað þá hvað mun gerast. Það fannst mér hálfsvekkjandi þar sem fyrri hluti myndarinnar var bara nokkuð fínn.

Ég hef voða lítið meira um þessa mynd að segja, enda stefni ég á að punga út þessum síðustu færslum í kannski aðeins meiri quantity over quality stíl, lesendum (lesanda?) til gífurlegar armæðu.
En hvað um það.

Stóra planið er svo sem sæmileg mynd. Fyndin og vel leikin en nær bara ekki að fylgja því eftir til enda.
* * af 5.