föstudagur, 7. desember 2007

The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford

Það eina sem er lengra en titillinn á þessari mynd er myndin sjálf. Hún er nefnilega litlar 160 mínútur og ekki með nokkru móti sú hraðasta. Fólk var farið að dæsa og andvarpa meira og meira og hærra og hærra eftir því sem leið á myndina og ég skildi það fullkomlega. Ég var samt sem áður ekki einn dæsaranna.

Myndin fjallar um síðustu árin í lífi útlagans Jesse James (Brad Pitt) og sambandi hans við einfeldninginn Robert Ford (Casey Affleck) sem hefur ídólíserað Jesse alla sína æfi. Það þarf varla að taka það fram að Robert Ford endar auðvitað á því að myrða Jesse vegna öfundar, reiði og græðgi; 3 dauðasyndir á einu bretti, takk fyrir. Og eins og ég minntist áður á þá tekur myndin sér mjög góðan tíma í að útskýra alla málavöxtu, sem og til þess að sýna löng skot af kornökrum, snjóbreiðum, fjöllum og shitload af skýjum.

Landslagsmyndirnar fóru samt alls ekkert í taugarnar á mér, ólíkt öðrum bíógestum sem dæstu enn meira þegar einn akurinn í viðbót birtist á tjaldinu, og mér fannst þessi landslagsskot bara ofboðslega falleg og glæsileg. Og með tónlist Nick Cave og Warren Ellis urðu þau bara enn fallegri.
Það fór þó aðeins meira í taugarnar á mér tíminn sem fór í allar litlu aukapersónurnar í myndinni. Það hefði vel verið hægt að klippa niður nokkur atriðin þeirra og sparað þar með dágóðan tíma, eða þá henda inn sólarlagsmyndum.

Casey Affleck sýnir það hér, og ekki í fyrsta sinn, að hann er miklu betri en stóri bróðir sinn. Casey er mjög trúverðugur sem Robert Ford og það er sama hvað Robert Ford er mikill heigull og aumingi, maður finnur alltaf svolítið til með honum. Nema eftir að hann drepur Jesse, þá er hann hrokafullur aumingi og skræfa og maður bíður bara eftir því að hann verði sjálfur myrtur. Þar koma kannski líka inn 150 mínúturnar sem höfðu liðið. Brad Pitt er einnig ferlega góður sem Jesse James. Ofsóknaræðið og netta geðveikin verður mjög trúverðug.

Til að gera langa sögu um mjög langa sögu mjög stutta:
Of langt en annars glæsilegt verk.

* * * * af 5.

Michael Clayton

George Clooney er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur alltaf verið (nema sem Batman - hann má skammast sín fyrir þann viðbjóð) og þess vegna fékk ég nokkurn áhuga á því að sjá Michael Clayton.

Ég finn smá lykt af Óskarsverðalaunum.
Ég get eiginlega ekki sagt annð.
George Clooney er bara helvíti flottur sem „reddarinn“ Michael Clayton. Hann (sem og handritshöfundurinn að sjálfsögðu) nær að skapa þennan sympatíska og svala karakter sem maður fer að óska alls góðs eftir því sem líður á myndina.

Myndin fjallar sem sagt um Michael Clayton, „reddara“ hjá stóru lögfræðifirma. Hann tekur að sér verkefni sem virðist fyrst vera nokkuð einfalt en það vindur síðan upp á sig svona líka svakalega og verður ansi stórt vandamál og jafnvel skaðlegt fyrir aðilana sem því tengjast.
Ég vil helst ekki fara nánar út í atburðarrásina, þar sem plottið er það mest spennandi við myndina.

Það eru engar massífar hasarsenur, engir drepfyndnir brandarar, engin krassandi kynlífsatriði, heldur er þetta bara flott lögfræðisakamálamynd.
Með George Clooney.

Helsti gallinn við hana er að hún er stundum of hæg. Ég er venjulega nokkuð hrifinn af hægum myndum, svo lengi sem seinagangurinn þjónar einhverjum tilgangi. Á köflum var erfitt að sjá þann tilgang.

* * * af 5.

Das Cabinet des Dr. Caligari

Ég held ég sé ekki að ljúga þegar ég segi að þetta er elsta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Ekki að það skipti nokkru máli... bara skemmtileg staðreynd.

Það er ekki hægt að taka það af Dr. Caligari að myndin er ansi skrautleg. Allar sviðsmyndir eru frekar listrænar og oft ansi súrar. En þær passa fullkomlega við hið súra efni sögunnar: Morðóði svefngengillinn Cesare, sem lýtur að stjórn hins geðveika Dr. Caligari - eða hvað?

Nú verð ég að viðurkenna að ég er hreinlega ekki alveg viss hvert plotttvistið var, þar sem ég sofnaði í örstutta stund. En ég valdi greinilega afskaplega slæman tíma til að sofna, því þegar ég vaknaði aftur var allt í lausu lofti og maðurinn sem allur höfðu verið að elta var skyndilega farinn að elta einhvern annan. Þannig að ég er örlítið ráðvilltur.

En ástæðan fyrir svefninum (fyrir utan það að þetta var eldsnemma morguns) var að ég var bara ekkert allt of hrifinn af myndinni. Jú, jú - sviðsmyndin var flott og svefngengillinn skemmtilega krípí, en það var fátt annað sem vakti einhverja athygli mína. Tónlistin vakti reyndar athygli mína, en ekki á jákvæðan hátt. Það fór bara sjúklega í taugarnar á mér að öll tónlistin var leikin af einhverri slappri synthaorchestru. Frekar óspennandi.

Dr. Caligari var eflaust stórkostlegt meistaraverk á sínum tíma og hefur enn nokkurn sjarma, þá sérstaklega í sögulegum skilningi, en það var fátt sem höfðaði nokkuð til mín.

* * af 5.

fimmtudagur, 6. desember 2007

The Kingdom

Ég sá einhvers staðar umsögn um The Kingdom sem lýsti henni einfaldlega sem „Syriana fyrir fífl“. Og það er þónokkuð til í því.

Plottið er afskaplega einfalt: Hópur bandarískra FBI-útsendara fer til Saudi-Arabíu og rannsaka hryðjuverkaárás þar í landi og verandi Hollywood mynd, þá finna þau kauða og myrða hann. Ónei, ég kjaftaði frá...

Jamie Foxx fer með hlutverk Ronald Fleury og gerir það eins og flest öll önnur hlutverk sem Jamie Foxx leikur - ofboðslega reiður og svalur á yfirborðinu, en mjúkur og tilfinningaríkur inni við beinið. Jennifer Garner er litlu merkilegri karakter. Chris Cooper er líklega skástur þeirra þriggja, en maður hefur kynnst þeim karakter, að manni finnst, nokkuð oft. Hann er sumsé þessi hressi, reyndi, en svona lúmskt pabbalegi gæinn í hópnum.

Það voru samt tveir hlutir sem stóðu upp úr í The Kingdom.
Í fyrsta lagi var ég nokkuð hrifinn af hasaratriðunum, þá sérstaklega „þessu stóra“ í lokin. Margir vina minna kvörtuðu undan myndavélahristingnum à la Bourne Ultimatum, en það fer einhvern veginn ekkert í taugarnar á mér, hvorki hér né í Bourne. Ef eitthvað eykur það bara frekar spennuna heldur en að trufla hana.

Í öðru lagi var það tónlistin. Danny Elfman er náttúrulega einn sá besti í bransanum og ég hef ekki enn rekist á Elfman soundtrack sem ég fíla ekki.

En The Kingdom skilur voðalega lítið eftir sig, nema kannski síðustu 2 atriðin, þegar aðilar beggja hliða málsins (Sádar og BNA-menn) lofa sömu réttlátu hefndum yfir hinum hópnum.

* * 1⁄2 af 5.

3:10 to Yuma

Í 3:10 to Yuma leika Russell Crowe og Christian Bale (gagnkynhneigða) kúreka.
Með byssur.
Og drepa fólk.

Hvað gæti klikkað?

Það er mjög fátt sem gæti klikkað og ennþá minna sem gerði það. Ég get ekki með nokkru móti talist mikill aðdáandi vestra og ég var aldrei eitt þeirra barna sem fílaði kúreka í botn. En það er samt eitthvað svalt við villta vestrið, þ.e. þegar það inniheldur ekki Will Smith og járnkönguló.

3:10 to Yuma réttir nokkuð mikið við ímyndina af kúrekum og gerir þá svala aftur í stað tilfinningaríkra homma (bókstaflega). Ekki það að Brokeback Mountain sé léleg mynd - alls ekki - en kúrekar eiga að vera töff. Og hvaða leikarar gætu mögulega verið betri til þess að gera eitthvað svalt nema Maximus og Batman? Ég bara spyr...

Sagan segir sumsé frá Dan Evans (Bale), fátækum bónda, sem fellst á að taka þátt í því að gæta hins alræmda glæpamanns Ben Wade (Crowe) á meðan þeir bíða eftir fangalest til Yuma, þar sem réttað verður yfir Wade. En það reynist ekki auðvelt verkefni, bæði vegna klíku Wade sem gera allt hvað þeir geta til að frelsa foringja sinn, og Wades sjálfs sem hefur mikið sálfræðistríð við Evans. Útkoman er töff, blóðug og spennandi.

Sagan er nokkuð töff og handritið er nokkuð heilsteypt, nema þegar fer að nálgast lok myndarinnar. Þá komu nokkrar ákvarðanir ákveðinna persóna mér verulega á óvart og virtust ekki „meika“ nokkurt „sens“. Ég fékk svolítið á tilfinninguna að það hefði vantað almennilegt showdown í myndina svo þeir hentu bara einu inn í lokin. Nú veit ég ekki...

Myndatakan var bara fín og mörg landslagsskotanna voru ansi glæsileg sem og margir skotbardaganna.

Ég veit ekki alveg hvort ég sé alveg sammála imdb.com um að þetta sé 172. besta mynd allra tíma en góð er hún samt og hækkar leikstjórann James Mangold enn meira í álíti hjá mér. Hann var þó þegar kominn á lista með hinni æðislegu Identity.

En eins og ég segi: Christian Bale og Russell Crowe með byssur...

* * * 1⁄2 af 5.

Superbad

Hin týpiska unglingagamanmynd, t.d. American Pie, hefur venjulega fallið undir ákveðna lýsingu: Klámfengin, svolítið fyndin (venjulega ekki meira en svolítið), svo sem skítsæmilega leikin og frekar ómerkileg í flesta staði. Superbad er að miklu leyti ekkert öðruvísi.

Superbad fjallar að vísu um ögn yngri stráka en American Pie gerir, en hefur sama grunnplott: Unglingsstrákar gera allt til þess að fá að sofa hjá. Hér lofar Seth (Jonah Hill) gellunni Jules því upp í ermina á sér að hann muni útvega áfengi fyrir partýið hennar. Til að gera það fá Seth og besti vinur hans, Evan (Michael Cera), sér til aðstoðar ofurasnalega súpernördann Fogell (Christopher Mintz-Plasse) sem er svo heppinn að geta útvegað sér fölsuð skilríki. En þegar Fogell er laminn í áfengisversluninni og tveir lögreglumenn kallaðir á svæðið forða Seth og Evan sér og reyna að útvega áfengið upp á eigin spýtur á meðan Fogell fer á skrautlegan rúnt með þessum léttsnarklikkuðu lögreglumönnum.

Margar uppákomurnar eru ansi ófrumlegir og marga brandarana hefur maður heyrt oft áður, en þeir virka samt ágætlega. Er þá aðallega að þakka skemmtilegum leik. Þar verður sérstaklega að taka fram lögreglumennina tvo, leikna af Bill Hader og Seth Rogen. Þeir eru klárlega skemmtilegustu karakterar myndarinnar og það fer aldrei á milli mála að þeir voru gerðir í akkúrat þeim tilgangi.

Þegar uppi er staðið þá er þetta ekkert nema venjulega unglingagamanmynd, nema ögn fyndnari. Það er fátt sem hún skilur eftir sig, ef nokkuð, en ég fór líka ekki á hana til þess að sjá eitthvað áhrifaríkt listaverk. Ég fór á hana til að hlæja og það gerði ég. Nokkuð oft m.a.s.

* * * 1⁄2 af 5.

miðvikudagur, 5. desember 2007

The General


Kynni mín af þöglum myndum eru ekki ítarleg. Þau byrjuðu þegar ég sá The Gold Rush eftir Chaplin í kvikmyndafræði í 9. bekk og enduðu einhverjum mánuðum seinna þegar ég sá Silent Movie eftir Mel Brooks. Og það voru engar þöglar myndir þarna á milli. Og ég þekkti ennþá minna til Buster Keaton, þannig að ég var ekki viss um hvað ég var að fara út í þegar við horfðum á The General í tíma eitthvert miðvikudagseftirmiðdegið.

Sagan segir frá Johnny Gray, einföldum lestarstjóra, sem fellur í ónáð hjá ástinni sinni, Annabelle Lee, þegar honum er ekki hleypt í Suðurríkjaherinn í borgarastyrjöld Bandaríkjanna. En þegar lestinni hans er rænt, með Annabelle innanborðs, fer Johnny einn síns liðs á eftir þeim í von um að bjarga báðum ástunum í lífi hans: Annabelle og lestinni.

Í fyrsta lagi er þetta ein fyndnasta mynd sem ég hef séð. Buster Keaton er algjörlega frábær sem hinn klaufski, en samt sem áður lúmskt lipri, Johnny og það voru ófáar senurnar þar sem hann gerði ekki annað en að hlaupa fram og aftur um lestina sína þar sem ég skellti upp úr. Svo gott er látbragðið.

Það er voða lítið annað við myndina sem vakti einhverjar ákveðnar skoðanir hjá mér, hvort sem var góðar eða slæmar. Sagan er afskaplega einföld og tónlistin nokkuð skemmtileg. Ég verð reyndar að minnast á kvikmyndatökuna. Kannski er það reynsluleysi mitt af þöglum myndum sem kemur hér inn, en kvikmyndatakan kom mér mjög á óvart. Hún var hreinlega miklu betri en ég átti von á. Öll skot af lestarsenunum voru ferlega góðar og voru einhvern veginn miklu líkari því sem maður sér í dag en ég hafði búið mig undir. En eins og ég segi - kannski var þetta staðallinn þá og ég hef lifað í einhverri sjálfsblekkingu, ég veit það ekki.

The General er frábær klassík og gríðarlega eigulegt verk.
* * * * 1⁄2 af 5.

Shoot 'em Up


Clive Owen treður gulrót upp í kjaftinn á glæpamanni og kýlir henni svo út um hnakkann á honum með orðunum "Eat your vegetables".
Það líða kannski 40 sekúndur áður en þessi fyrsti gæi er drepinn í snilldinni sem er Shoot 'em Up, og þvílík leið til að drepa einhvern. Það þarf líklega ekki að taka það fram að á næstu 86 mínútunum drepur Clive Owen, sem leikur sjúklega reiðu snilldarskyttuna Smith, tugi manna og er hvert morðið skrautlegra en það sem á undan fór.

Shoot 'em Up er svo yndislega over the top að ÖLLU leyti að í stað þess að vera klisjukennd og hallærisleg verður hún ótrúlega fyndin. One-linerar eru alls staðar og öllum lögum eðlisfræðinnar er grimmilega misþyrmt til þess eins að gera Smith svalari en Chuck Norris og Steven Seagal til samans.
Til dæmis má nefna það þegar Smith klessir bílnum sínum, beltislaus, beint framan á sendiferðabíl glæpamannanna, hendist út um rúðuna og inn í sendiferðabílinn og skýtur alla sem eru þar inni í örfáum skotum og segir: "So much for seatbelts". Það var klappað í bíósalnum yfir þessari snilld - eðlilega.

Sagan segir sem sagt frá hinum reiða Smith, sem á sér afar dularfulla fortíð, sem lendir í því að bjarga barni frá einstaklega óhæfum glæpamönnum, sem leiddir eru af hinum ofurilla Hertz (Paul Giamatti). Smith fær svo kynþokkafullu vændiskonuna Donnu Quintano (Monica Bellucci) sér og ungbarninu til aðstoðar.
Afskaplega frumlegt og djúpt plott.

En manni verður svo algjörlega sama up söguþráðinn því allar skynsamlegar hugsanir manns drukkna í one-linerum, skotbardögum og kynlífssenum - jafnvel öllu þrennu á sama tíma. ("Talk about shooting your load!")

Það er langt síðan ég hef skemmt mér svona hrikalega vel í bíó og þegar öllu er á botninn hvolft - er það ekki helsti tilgangurinn með bíómyndum?

* * * * 1⁄2 af 5.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Veðramót


Maður fer alltaf á íslenskar bíómyndir með vissar væntingar í huga, eða í mínu tilfelli meira með vissan skort á væntingum. Ég geri einhvern veginn alltaf ráð fyrir því að íslenskar kvikmyndir séu miklu lakari en erlendar og er það hreinlega vegna þess að oftar en ekki hefur það reynst satt.

Veðramót fellur að miklu leyti utan þeirrar skilgreiningar, mér til mikillar furðu. Sagan fannst mér bara nokkuð heilsteypt og ég tók ekki eftir neinu sérstöku í sambandi við handritið sem fór eitthvað í taugarnar á mér.
En það er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið neitt sem fór í taugarnar á mér, því það voru element sem fóru virkilega í mig. Þá sérstaklega það sem hefur verið einn stærsti gallinn við íslenskar kvikmyndir: leikararnir.

Það sést alltaf svo óþægilega greinilega hvað íslenskir leikarar í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eru mikið að leika. (Það eru til undantekningar, en þær eru ekki margar). Til að mynda fannst mér Tinna Hrafnsdóttir ekki mjög trúverðug í sínu hlutverki og þannig séð ekki Atli Rafn heldur. Og við skulum ekki einu sinni ræða ungu krakkana (ég verð samt að taka fram að Ugla og Gunnur fannst mér skila sínu nokkuð vel - og Hera Hilmars á köflum).
Hilmir Snær var fínn og Jörundur var frábær. Hann var eini karakterinn sem virkilega stóð ljóslifandi fyrir mér í þessari mynd. Jörundur var karakterinn sinn, ekki hann sjálfur að leika karakterinn sinn.

En þrátt fyrir þetta var ég bara nokkuð sáttur við Veðramót. Ögn hæg á köflum, en kom efni sínu nokkuð vel til skila.
* * * af 5.