miðvikudagur, 19. september 2007

Topp 10 listinn (2/2)

6. Oldboy
Þetta er fjórða ó-bandaríska myndin á þessum lista mínum og jafnframt sú besta sem ég man eftir í augnablikinu.
Ég tók þessa mynd á videoleigu fyrir nokkrum árum í algerri blindni. Ég hafði ekkert heyrt um þessa mynd og vissi í raun ekkert hvað ég var að gera.
Þetta var eflaust einn ánægjulegasti videoleigugrís ævi minnar.
Oldboy er...
...svo flott (plottið og heildarlúkkið),
...svo hrottaleg (plottið og hin ýmsu blóðugu atriði),
...svo falleg (tónlistin og heildarlúkkið),
...svo framandi (kóresk) að ég hreinlega gat ekki annað en sett hana á listann.
Eftir að hafa séð Oldboy þá fór ég líka að kynna mér aðrar myndir eftir Chan-Wook Park, svo sem Lady Vengeance og Sympathy for Mr. Vengeance sem eru báðar mjög ofarlega á lista.
En, já, Oldboy = æði.

5. Crash
Falleg og áhrifarík mynd. Ein sú áhrifaríkasta sem ég man eftir. Ég hef sjaldan, ef nokkurn tímann, sokkið svo djúpt inn í bíómynd að ég var næstum því staðinn upp í bíóinu vegna eins eða tveggja atriðanna.
Góður boðskapur, falleg tónlist og mjög góður leikur í öllum hlutverkum. M.a.s. rapparinn Ludacris var bara nokkuð trúverðugur í sínu hlutverki.
Ég er enn fúll út í alla fjölmiðlana sem drullaði yfir það þegar Crash vann óskarinn fyrir bestu mynd á sínum tíma. Og enn fúlli yfir að lagið "In the Deep" úr henni hafi tapað fyrir "It's Hard Out There for a Pimp" úr Hustle & Flow.
En hvað um það - myndin er samt sem áður æðisleg.

4. Fight Club
Vá, hvað ég var hrifinn af þessari! Alveg frá fyrstu mínútu var ég búinn að ákveða það með sjálfum mér að þetta væri æðisleg mynd. Edward Norton er verulega svalur og Brad Pitt alveg yndislega snargeggjaður. Ekki skemmir fyrir að þessi mynd inniheldur eitt svalasta plott tvist sem ég man eftir. Hugmyndin per se kannski ekki sú frumlegasta en framkvæmdin er frábær.
Ein svalasta mynd sem ég hef séð og hún er eflaust aðalástæðan fyrir hrifningu minni á David Fincher sem leikstjóra.

3. Eternal Sunshine of the Spotless Mind
Besta mynd Jim Carrey fyrr og síðar. Aldrei hefur hann leikið eins vel og í þessari ótrúlega frumlegu og æðislegu mynd. Bara söguþráðurinn út af fyrir sig er nógu góð ástæða fyrir því að hrífast af þessari mynd - Charlie Kaufman er verulega brenglaður snillingur.
Myndin er svo falleg og, þrátt fyrir súrrealísku hugmyndina á bakvið hana, svo raunveruleg, einhvern veginn. Hún er nefnilega nánast algjörlega laus við allt sykurhúðað Hollywood sjitt sem á það mjög gjarnan til að skemma annars mjög góðar myndir.
Frábær í alla staði.

2. The Shawshank Redemption
Það þarf varla að að segja það hve æðisleg þessi mynd er. Ég hef ekki ennþá hitt aðila sem finnst hún ekki frábær og ég á í raun og veru ekki von á því að gera það nokkurn tímann. Svo æðisleg er hún. En eins og ég segi, það þarf varla að minnast meira á þessa mynd. Ég meina, hún er í 2. sæti á IMDB.
Enough said.

1. Garden State
Mér finnst réttast að taka það fram að ég sá þessa mynd *áður* en ég ánetjaðist Scrubs þannig að það er ekki hægt að túlka ást mína á þessari mynd sem einhverja blinda Zach Braff ást.
Ég tók hana á leigu fyrir einhverjum sumrum síðan eftir að hafa séð trailerinn í bíó nokkrum mánuðum áður. Ég veit ekki hvað það var við trailerinn, en hann bara virkaði á mig. Alveg frá því ég sá hann fyrst langaði mig ofboðslega mikið að sjá Garden State. Kannski var það tónlistin, kannski var það lookið, kannski var það Natalie Portman, ég veit það hreinlega ekki.
En niðurstaðan varð sú að ég tók hana á leigu og horfði á hana eitthvert kvöldið.
Engin mynd hefur haft jafn mikil áhrif á mig og Garden State. Aftur, þá geri ég mér ekki alveg grein fyrir því hvað það var, en hún skildi mig eftir í sjokki sem átti eftir að endast í nokkra daga. Hún er bara svo falleg og flott, eitthvað, að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Að vísu svolítið sykurhúðuð - en mér var bara alveg sama.
Líklega sú mynd í DVD safninu mínu sem ég hef hvað oftast horft á (3 sinnum á fyrstu 4 dögunum eftir að ég fékk hana, takk fyrir (2 mismunandi commentary)).
Það var aldrei spurning um hvar á listanum Garden State ætti heima.
Klárlega besta mynd sem ég hef séð.

mánudagur, 17. september 2007

Topp 10 listinn (1/2)

Mér finnst ég verða að byrja á því að taka það fram að þessi list er alls ekki 100% öruggur. Mér finnst hreinlega of erfitt að gera upp á milli æðislegra mynda. Ég tek aðallega bara mið af því hvort þær séu einmitt það: æðislegar. Ég fer ekki svo langt í að tala um 'æðislegri' myndir og læt þá flokkun oftast vera.
En nú gerði ég mitt besta til að troða einhverjum myndum í einhver sæti og ég er nokkuð viss um að þessi listi muni breytast yfir veturinn, þar sem það er mjög hugsanlegt að ég sé að gleyma einhverjum gullmolum.

Hefst nú lestur:

10. Das Leben der Anderen

Ég fór á þessa mynd í sumar með afar misspenntu föruneyti og við vissum eiginlega ekki alveg hvað við vorum að fara að horfa á. Það eina sem ég vissi fyrir fram var að hún var þýsk og samkvæmt einhverri tilvitnun átti hún að vera „Besta mynd í heimi“.
Það er alltaf mjög hættulegt að fara einungis með þá vitneskju inn í kvikmyndahús en ég slapp með skrekkinn í þetta skiptið og gott betur en það. Þetta er nefnilega ein besta mynd í heimi. A.m.k. nógu góð var hún til að rata inn í þennan lista minn.
Það er eitt sem mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að sjá þegar ég horfi á myndir gerðar utan Bandaríkjanna, og það er hve mikið maður er farinn að venjast asnalegheitunum og ruglinu í Hollywood. T.d. var ég lengi að bíða eftir bílasprengjunni og hrottalega grafísku yfirheyrslunum. En nei, þær komu ekki, mér til mikillar gleði.
Hágæða mynd með frábæru plotti og framúrskarandi leik.
Getur það klikkað?

9. El laberinto del fauno

Ég hafði beðið eftir þessari mynd með mikilli eftirvæntingu alveg frá því ég sá trailerinn í fyrsta sinn. Mér fannst strax eitthvað svo heillandi við þennan spænska töfraheim, sem sýndur var í þessar 40 sekúndur. Þess vegna var ég himinlifandi þegar Græna Ljósið ákvað að taka hana til sýningar.
Ég var alveg jafn ánægður þegar ég kom út úr bíósalnum. Ég gat ekki, sama hve mikið ég reyndi, fundið nokkurn galla við þessa mynd.
Leikurinn var frábær (sérstaklega Sergi López sem sadistaherforinginn Vidal), sagan flott, tónlistin gullfalleg, myndatakan nógu góð til að ég tók eftir henni (sem er mjög sjaldgæft í mínum bókum) og allur töfraheimurinn glæsilegur. T.d. er föla, mjóa, barnamyrðandi viðundrið r eitt svalasta skrímsli sem ég man eftir í kvikmynd.
Klárlega mynd sem maður þarf að eiga.

8. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain

Ein rómantískasta mynd sem ég hef séð og jafnframt ein sú besta.
Það fyrsta sem ég vil minnast á í sambandi við þessa mynd er tónlistin, því Amélie inniheldur fallegasta soundtrack sem ég hef heyrt (kannski fyrir utan Lion King). Píanóverkin sem Yann Tiersen hefur samið fyrir þessa mynd eru nógu góð ástæða út af fyrir sig til að elska þessa mynd. En ég mæli samt með því að kaupa ekki *bara* soundtrackið - myndin er alveg peningsins virði.

7. The Lion King

Án nokkurs vafa mesta nostalgíumyndin á listanum. Ég hef horft á hana nokkuð oft síðan ég sá hana 6 ára gamall og ég kemst ekki hjá því að verða alltaf 6 ára þegar ég horfi á ævintýri Simba. Hvernig getur nokkur maður gleymt hýenueltingarleiknum í fílakirkjugarðinum, pödduátinu með Tímon og Púmba og logandi 'showdowninu' við Skara? Að ógleymdu sorglegasta atriði kvikmyndasögunnar - dauða Múfasa.
Mamma Bamba má eiga sig og Roberto Benigni má fórna sér eins og hann vill, það er ekkert sem toppar dauða Múfasa í mínum bókum. Og nákvæmlega af þeirri ástæðu er Lion King ein áhrifamesta mynd sem ég hef séð.

To be continued...

þriðjudagur, 11. september 2007

American Movie

Mark Borchardt er bandarískur kvikmyndagerðarmaður. Hann er fráskilinn, fátækur, drykkfelldur og óttalegur lúser í alla staði en hann er kvikmyndagerðarmaður og reynir allt til að sýna öðrum þá hlið á sér. Myndin segir frá tveimur árum af lífi Marks þar sem hann gerir allt hvað hann getur til að taka upp hryllingsstutt-myndina Coven. Til þess notar hann allt sem hann mögulega getur. Starfsfólkið samanstendur alfarið af vinum og ættingjum og fjármagnið kemur meira og minna allt frá háöldruðum frænda hans.
Burtséð frá því hve ferlega fyndin þessi mynd er - þá sérstaklega samskiptin milli Marks og Mikes Schank, besta vinar hans - þá hefur hún líka smá svona "feel-good" element. Bara það hve bjartsýnn og ákveðinn Mark er í þessu verkefni sínu er að vissu leyti aðdáunarvert. En aftur á móti má efast um hæfileika hans...

mánudagur, 3. september 2007

Disturbia

Í gærkvöldi fór ég á Disturbia og mætti of seint. Þannig að taka verður mið af því að ég missti af fyrstu 4-5 mínútum myndarinnar. En það hafði þó engin teljandi áhrif á eftirleikinn, þar sem það var ekki erfitt að geta sér til um það hvað hafði gerst á þessum upphafsmínútum. En hvað um það.
Í fljótu bragði verð ég að segja að Disturbia er eflaust ein af mest spennandi myndum sem ég hef séð á árinu og jafnframt ein þeirra mynda sem hafa komið mér hvað mest á óvart.
Í grunnatriðum er söguþráðurinn nauðalíkur söguþræðinum í Rear Window eftir Alfred Hitchcock, þ.e. aðili sem kemst ekki út úr húsi grunar nágranna sinn um morð. Þó eru nokkur atriði frábrugðin og heildarhugmyndin færð upp á aðeins meira "hipp og kúl" Hollywood stig og virkar það bara nokkuð vel. En eins og í flestum "hipp og kúl" Hollywood myndum eru nokkrar kjánlegar klisjur og göt í söguþræðinum.
Það þarf þó meira en nokkrar klisjur til að draga myndina ofan í svaðið og nær hún því að standa uppi sem ein mest taugatrekkjandi bíóferð mín á árinu.