þriðjudagur, 8. apríl 2008

Joint Security Area (Gongdong gyeongbi guyeok JSA) (2000)

Ég held ég sé farinn að nálgast ískyggilega mikið það stig að geta sagt án nokkurs vafa að minn uppáhaldsleikstjóri (a.m.k. topp 3) er Chan-Wook Park. Nú var ég að ljúka að horfa á JSA, sem er þá önnur Chan-wook Park myndin mín á jafnmörgum kvöldum og jafnframt sú fimmta (sjötta ef ég tel stuttmyndir með) sem ég hef séð. Ég get sagt það með 126% vissu að þær eru allar verulega góðar, þó sumar séu betri en aðrar. Oldboy er t.a.m. best, og ég er ekki frá því að JSA komi beint inn í annað sætið. Þar á eftir kemur Lady Vengeance, svo I'm a Cyborg, But That's OK í því fjórða og að lokum Sympathy for Mr. Vengeance („Cut“ úr Three Extremes er svo sér á lista). En aftur árétta ég að þetta eru allt hágæðamyndir og ég fæ næstum því samviskubit yfir því að raða þeim upp á þennan hátt.

En, já, JSA er víst aðalefni þessarar færslu.
Ég var ekki búinn að kynna mér þessa mynd neitt að ráði þegar ég - uhh - útvegaði mér hana í dag, nema ég vissi það að þetta væri einhvers konar herdrama úr stríðinu milli Norður- og Suður-Kóreu. Í „Einskis manns landi“ milli Norður- og Suður-Kóreu er ein tenging, svokallað Joint Security Area í Panmunjeom, og einmitt þar gerist öll myndin. Upp kemur massíft vesen þegar tveir norður-kóreskir hermenn finnast látnir í vaktturni N-Kóreu megin og bendir allt til þess að þeir hafi verið myrtir af S-Kóreumanninum Sgt. Lee Soo-hyeok. En sögum hans og hins n-kóreska Sgt. Oh Kyeong-pil, sem einnig var vitni að þessu, ber ekki saman þ.a. til er kölluð hlutlaus svissnesk/sænsk sveit til að rannsaka málið, sem er alls ekki svo einfalt og það virðist vera í fyrstu.

Sgt. Oh situr vinstra megin, Sgt. Lee hægra megin og fyrir miðju er svo hin svissnesk/kóreska Maj. Sophie E. Jean, yfirmaður rannsóknarinnar. Ég vil síðan benda á ótrúlega sænska gaurinn uppi til hægri.
Myndin er frekar myrk - og þá í bókstaflegri merkingu, þar sem mest öll atburðarrásin á sér stað um nótt - og eins og við er að búast frá Chan-Wook Park myndum lítur hún glæsilega út í alla staði. Náttúran kemur meira við sögu hér en áður, af augljósum ástæðum og eru mörg náttúruskotin afskaplega flott.

Ég er afskaplega hrifinn af birtunni í þessu skoti. Það og staðreyndina að það er ekkert þarna nema hermennirnir og stráin.
Það fer ekki mikið fyrir tónlistinni framan af myndinni en þegar líða tekur á og dramatíkin og átakanleikinn magnast upp spilar hún stærra og stærra hlutverk og hefur hún leitt til þess að akkúrat núna er ég að - uhh - útvega mér einhver af verkum Yeong-wook Jo (sem sér um tónlistina í flestum myndum Parks). Tónlistarnotkunin er einnig öllu hefðbundnari hérna, fyrir utan kóresku ballöðuna við eina stríðssenuna, en hún virkaði furðulega vel, bæði sem bakgrunnstónlist og svo féll hún vel að sögunni.

*Spoilerar*


Þá vitiði það. Ef þið viljið upplifa þessa mjög svo góðu mynd upp á eigin spýtur þá ráðlegg ég ykkur að hætta að lesa hérna.

Augljóst er að aðalefni myndarinnar er í raun og veru vinátta S-Kóreumannanna Sgt. Lee og Pvt. Nam við N-Kóreumennina Sgt. Oh og Pvt. Jeong. Þeir eiga alls ekki að vera vinir, enda engin vinátta milli þjóðanna. Þ.a. að því leyti er JSA svolítið eins og asísk buddy-útgáfa af Rómeó og Júlíu.

„Why can't we all just... get along?“
Og líkt og í Rómeó og Júlíu endar samband þeirra með hamförum þegar yfirmaður þeirra Oh og Jeung gengur inn á fjórmenningana sem voru að hafa það gott saman. Spennan sem myndast í þeirri senu þar sem þeir standa með byssurnar á lofti, togstreitan milli þess að skjóta vini sína annars vegar og svíkja þjóð sína hins vegar, er rosaleg.

Fílíngurinn sem Park nær að mynda í þessari senu er bæði sjúklega spennandi og verulega átakanlegur. Jeung velur hér þjóð sína fram yfir hina nýju vini.
Og eftirmálar þessa eru ekki síður átakanlegir, þegar Oh og Lee mætast við yfirheyrslur, hvor með sína lygasöguna að vopni í tilraun til að fela vináttu sína. Hræðslan við það að málið komist upp er m.a.s. svo mikil hjá Nam að strax og hann grunar að rannsóknarteymið sé að nálgast sannleikann reynir hann að fremja sjálfsmorð.
En eitt það glæsilegasta við þessa mynd er án nokkurs vafa síðasti rammi myndarinnar: ljósmyndin sem bandaríski ferðamaðurinn tekur af landamærunum innan JSA.

Einn útpældasti lokarammi sem ég veit um.

Pælingin sem liggur á bakvið þennan ramma er aðdáunarverð og fer eflaust framhjá flestum. Myndin sýnir okkur sigur fjórmenninganna á mótlætinu en leyfir jafnframt sorginni sem fylgir málalokunum að síga inn. Lee reynir að skýla Oh fyrir myndatökunni, sem sýna aðgerðir Lee í myndinni í hnotskurn: tilraunir hans til að verja Oh, sem bjargaði lífi hans í byrjun. Ef við köfum enn dýpra (kannski er ég að teygja mig ofan í drulluna) þá má jafnvel líta á bandaríska ferðamanninn sem tók myndina sem tákn fyrir Bandaríkin í heild sinni - fylgjast með utan frá en sjá jafnframt ekki þann mikla mun sem aðskilur þjóðirnar í raun og veru og samstöðuna milli þeirra.
Eins og ég segi, þetta er kannski fisk, en þar sem Park er víst með prófgráðu í heimspeki gæti ég alveg trúað því að það sé mikil merking á bakvið þetta skot.

JSA er sumsé þrælmögnuð mynd og ég gæti þurft að endurskoða Topp 10 listann minn á næstu dögum...
* * * * 1⁄2 af 5.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Flott færsla. Og númer tvö á eftir Oldboy! Greinilegt að ég verð að líta á þessa, ég var ekki einu sinni búinn að heyra neitt um hana.

7 stig.