þriðjudagur, 15. apríl 2008

Stóra planið (2008)

Þegar ég fór á myndina var ég orðinn pirraður áður en ég var sestur niður, en ekki út í myndina eða aðstandendur hennar, heldur kvikmyndahúsið. 1300 kall fyrir bíó er sjúklega mikið. Nánast jafn dýrt og bensínkostnaðurinn við að koma sér þangað - ZING.

En hvað um það, maður sér ekki eftir peningnum þegar maður horfir á hágæðamynd - sem Stóra planið var ekki.

Ég viðurkenni reyndar að hún var eiginlega algjörlega laus við hinn einkennandi skelfilega íslenska kvikmyndaleik. Langflest samtölin flæddu frekar vel og virkuðu mjög eðlileg. Enda, eins og Ólafur „de Fleur“ Jóhannesson sagði (sem var btw frábær heimsókn - sú besta hingað til), voru leikararnir meira og minna að spinna samtölin sín á milli. Það er greinilega the way to go fyrir íslenskan kvikmyndaleik, því þessi klassíski skelfilegi er oft hreint út sagt pínlegur.

Stóra planið segir frá Davíð (Pétur Jóhann Sigfússon), gjörsamlega misheppnuðum handrukkara, sem verður skyndilega bigshot þegar hann kynnist Haraldi Haraldssyni (Eggert Þorleifsson), alræmdum fyrrverandi glæpaforingja Íslands. En þegar líða tekur á samband þeirra Davíðs og Haralds fara mál að flækjast og teygja sig allt til æsku Davíðs þegar keyrt var á bróður hans.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Eggert Þorleifsson er einn fyndnasti og besti gamanleikari íslensku þjóðarinnar og þessi mynd breytir þeirri skoðun ekkert. Hann fer afar vel með hlutverk sitt sem hinn stórskemmdi og kengruglaði Haraldur.
Til að mynda er atriðið á bílaþvottaplaninu algjörlega óborganlegt og það er örugglega ekki margir aðrir en Eggert sem gætu gert það jafn fyndið og raun bar vitni.

Pétur Jóhann kemur líka sterkur inn, enda vann hann sig mjög hátt upp í virðingarstiga mínum í Næturvaktinni (þó ekki eins hátt og Jón Gnarr, en það er efni í aðra færslu). Davíð er ekkert allt of ólíkur Ólafi Ragnar heldur - báðir óttalegir lúserar sem trúa í blindni á það að þeir verði loksins eitthvað. Benedikt Erlingsson og Ingvar E. eru líka pottþéttir eins og ávallt, sem og Stefan C. Schaefer sem hinn yndislegi og kjánalegi Wolfi, sem kom mér skemmtilegast á óvart.

Myndin byrjar nokkuð skemmtilega (burtséð frá ákeyrslunni, sem var sjokkerandi og furðulega brútal miðað við íslenskan klassa) og heldur fínum dampi fram að hléi (sem ég hata svo innilega ennþá, btw). En eftir hlé kárnaði gamanið. Jú jú, brandararnir voru ennþá til staðar en myndin varð bara eitthvað svo stefnulaus og máttlaus. Maður vissi einhvern veginn ekkert hvað hafði gerst, hvað var að gerast og hvað þá hvað mun gerast. Það fannst mér hálfsvekkjandi þar sem fyrri hluti myndarinnar var bara nokkuð fínn.

Ég hef voða lítið meira um þessa mynd að segja, enda stefni ég á að punga út þessum síðustu færslum í kannski aðeins meiri quantity over quality stíl, lesendum (lesanda?) til gífurlegar armæðu.
En hvað um það.

Stóra planið er svo sem sæmileg mynd. Fyndin og vel leikin en nær bara ekki að fylgja því eftir til enda.
* * af 5.

1 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Ágætisfærsla. 6 stig.