6. Oldboy
Þetta er fjórða ó-bandaríska myndin á þessum lista mínum og jafnframt sú besta sem ég man eftir í augnablikinu.
Ég tók þessa mynd á videoleigu fyrir nokkrum árum í algerri blindni. Ég hafði ekkert heyrt um þessa mynd og vissi í raun ekkert hvað ég var að gera.
Þetta var eflaust einn ánægjulegasti videoleigugrís ævi minnar.
Oldboy er...
...svo flott (plottið og heildarlúkkið),
...svo hrottaleg (plottið og hin ýmsu blóðugu atriði),
...svo falleg (tónlistin og heildarlúkkið),
...svo framandi (kóresk) að ég hreinlega gat ekki annað en sett hana á listann.
Eftir að hafa séð Oldboy þá fór ég líka að kynna mér aðrar myndir eftir Chan-Wook Park, svo sem Lady Vengeance og Sympathy for Mr. Vengeance sem eru báðar mjög ofarlega á lista.
En, já, Oldboy = æði.
5. Crash
Falleg og áhrifarík mynd. Ein sú áhrifaríkasta sem ég man eftir. Ég hef sjaldan, ef nokkurn tímann, sokkið svo djúpt inn í bíómynd að ég var næstum því staðinn upp í bíóinu vegna eins eða tveggja atriðanna.
Góður boðskapur, falleg tónlist og mjög góður leikur í öllum hlutverkum. M.a.s. rapparinn Ludacris var bara nokkuð trúverðugur í sínu hlutverki.
Ég er enn fúll út í alla fjölmiðlana sem drullaði yfir það þegar Crash vann óskarinn fyrir bestu mynd á sínum tíma. Og enn fúlli yfir að lagið "In the Deep" úr henni hafi tapað fyrir "It's Hard Out There for a Pimp" úr Hustle & Flow.
En hvað um það - myndin er samt sem áður æðisleg.
4. Fight Club
Vá, hvað ég var hrifinn af þessari! Alveg frá fyrstu mínútu var ég búinn að ákveða það með sjálfum mér að þetta væri æðisleg mynd. Edward Norton er verulega svalur og Brad Pitt alveg yndislega snargeggjaður. Ekki skemmir fyrir að þessi mynd inniheldur eitt svalasta plott tvist sem ég man eftir. Hugmyndin per se kannski ekki sú frumlegasta en framkvæmdin er frábær.
Ein svalasta mynd sem ég hef séð og hún er eflaust aðalástæðan fyrir hrifningu minni á David Fincher sem leikstjóra.
3. Eternal Sunshine of the Spotless Mind
Besta mynd Jim Carrey fyrr og síðar. Aldrei hefur hann leikið eins vel og í þessari ótrúlega frumlegu og æðislegu mynd. Bara söguþráðurinn út af fyrir sig er nógu góð ástæða fyrir því að hrífast af þessari mynd - Charlie Kaufman er verulega brenglaður snillingur.
Myndin er svo falleg og, þrátt fyrir súrrealísku hugmyndina á bakvið hana, svo raunveruleg, einhvern veginn. Hún er nefnilega nánast algjörlega laus við allt sykurhúðað Hollywood sjitt sem á það mjög gjarnan til að skemma annars mjög góðar myndir.
Frábær í alla staði.
2. The Shawshank Redemption
Það þarf varla að að segja það hve æðisleg þessi mynd er. Ég hef ekki ennþá hitt aðila sem finnst hún ekki frábær og ég á í raun og veru ekki von á því að gera það nokkurn tímann. Svo æðisleg er hún. En eins og ég segi, það þarf varla að minnast meira á þessa mynd. Ég meina, hún er í 2. sæti á IMDB.
Enough said.
1. Garden State
Mér finnst réttast að taka það fram að ég sá þessa mynd *áður* en ég ánetjaðist Scrubs þannig að það er ekki hægt að túlka ást mína á þessari mynd sem einhverja blinda Zach Braff ást.
Ég tók hana á leigu fyrir einhverjum sumrum síðan eftir að hafa séð trailerinn í bíó nokkrum mánuðum áður. Ég veit ekki hvað það var við trailerinn, en hann bara virkaði á mig. Alveg frá því ég sá hann fyrst langaði mig ofboðslega mikið að sjá Garden State. Kannski var það tónlistin, kannski var það lookið, kannski var það Natalie Portman, ég veit það hreinlega ekki.
En niðurstaðan varð sú að ég tók hana á leigu og horfði á hana eitthvert kvöldið.
Engin mynd hefur haft jafn mikil áhrif á mig og Garden State. Aftur, þá geri ég mér ekki alveg grein fyrir því hvað það var, en hún skildi mig eftir í sjokki sem átti eftir að endast í nokkra daga. Hún er bara svo falleg og flott, eitthvað, að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Að vísu svolítið sykurhúðuð - en mér var bara alveg sama.
Líklega sú mynd í DVD safninu mínu sem ég hef hvað oftast horft á (3 sinnum á fyrstu 4 dögunum eftir að ég fékk hana, takk fyrir (2 mismunandi commentary)).
Það var aldrei spurning um hvar á listanum Garden State ætti heima.
Klárlega besta mynd sem ég hef séð.
miðvikudagur, 19. september 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli