Ég ætla aðeins að brjóta upp bloggstílinn hjá mér, þar sem þessi klassíska gagnrýnisuppbygging er að verða pínulítið þreytt (ég er líka að vonast eftir bónusstigi hvað varðar frumleika - *hint* *hint*).
En að þessu sinni ætla ég að koma með eina blog-on-the-go færslu, þ.e.a.s. ég er nýbúinn að opna myndina „I'm a Cyborg, But That's OK“ eftir Chan-Wook Park, sem er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum, og ég mun skrifa um hana á meðan ég horfi.
Komum þá þessari sýningu á veginn.
0 mín.
Opnunarkreditlistinn er frekar töff - fullt af tannhjólum og græjum. Cyborg, kannski? Tónlistin er líka soldið Danny Elfmanleg.
1 mín.
Ok, fyrsta skot myndarinnar er geðveikt.
7 mín.
Þetta voru eflaust einir flottustu opnunarkredits sem ég hef séð. Kynningarnar héldu sumsé áfram eftir tannhjólaþrívíddina, nema nú birtust nöfnin á hinum ýmsu hlutum í myndinni: Vörumerki tölvuskjás og músamottu, á útvarpi og allra svalast á teiprúllu sem Young-goon (tilvonandi aðalpersóna) vefur um nýskorinn úlnliðinn á sér -> 3 hringir, 3 nöfn. Mjög svalt.
10 mín.
Young-goon vann sem sagt í einhvers konar raftækjafjöldaframleiðslu, en missti greinilega vitið og heyrði t.a.m. leiðbeiningarnar í kallkerfinu segja henni að skera sig á púls, tengja víra við, teipa fyrir (með ofangreindri rúllu) og stinga í samband.
Nú liggur hún í sjúkrarúmi á geðspítala og ég var að fylgjast með einnar töku göngutúr um spítalann með fullt af geðsjúklingum rúllandi, skríðandi og labbandi skáhallt um gólfin. Massíf sena.
14 mín.
Young-goon situr og spjallar við sjálfsala um vinahót flúrljósanna þegar grímumaðurinn, sem var hópnauðgað í hernum, læðist til hennar. Það er greinilegt í hvað myndin stefnir.
19 mín.
Stóra, feita, fjólubláa andlitssnertandi kellingin er buínn að bjóðast til að hjálpa Young-goon að svelta sig í hel með því að borða matinn hennar fyrir hana. Þvílíkt örlæti.
Á meðan situr Young-goon og sleikir batterí í tilraun til að endurhlaða sig. Það var víst það sem hún var að reyna að gera í verksmiðjunni. Tærnar á henni eru víst orkumælar.
24 mín.
Vó, kreisí myndataka. Panað hring eftir hring eftir hring í umræðutíma þar sem margvíslegir sjúklingar saka grímumanninn um að hafa stolið frá sér einhverju, t.d. borðtennishæfileikum, minninu og líkamsmittisteygju. Myndatakan er passlega klikkuð miðað við myndefnið.
25 mín.
Aha, grímumaðurinn stal fimmtudegi. Magnað.
29 mín.
Útvarpsröddin segir Young-goon að myrða „The white ones“, sem tóku ömmu hennar, geðklofann/músina, í burtu frá henni. Það ætlar hún að gera þegar hún er fullhlaðinn.
30 mín.
Dauðasyndirnar sjö eru greinilega misskilningur, því hérna er þær réttu: Meðaumkun, sjálfsvorkunn, eirðarleysi, hik, gangslausir dagdraumar, samviskubit og þakklæti - birt í illskuröð.
33 mín.
Ofurundirgefni maðurinn (sem getur ekki einu sinni gengið áfram vegna auðmýktar) á línu myndarinnar hingað til: „Can't there be ping-pong where we only give?“.
Score.
34 mín.
Ah, scratch that!
„A cat is, above all, a furry animal.“
35 mín.
Grímumaðurinn er búinn að stela kurteisi ofurundirgefna mannsins.
...á hvað er ég að horfa?
43 mín.
Önnur umræðuhópssena - ekki alveg jafn klikkuð og áðan. En grímumaðurinn er búinn að skila kurteisinni.
44 mín.
Jæja, nú fer eitthvað að gerast. Vélarnar eru búnar að segja Young-goon að amma hennar er fallin í dá, þ.a. Young-goon þarf að fara að flýta sér að gefa henni fölsku tennurnar hennar. Og hún er búin að biðja grímumanninn um að stela meðaumkun sinni til að geta myrt „The White Ones“.
46 mín.
Young-goon vippar út fingurbyssunum sínum og sallar niður læknana.
Ah, ah - nei. Það gerir hún ekki. Enda bara snargeðveik.
50 mín.
Ég er búinn að taka þá ákvörðun núna að ég ætla að fækka aðeins punktunum - aðallega þar sem þetta er það góð mynd enn svo komið er að ég vil ekki spoila hana meira fyrir fleirum.
Annars var feita, andlitssnertandi konan bara að fljúga í rúminu sínu með stöðurafmagnssokkunum sínum.
55 mín.
Mikið svakalega er þetta sjónrænt æðisleg mynd.
60 mín.
Ég er farinn að elska músíkina í þessari mynd. Hún er kannski ekkert frábær í sjálfu sér, en hún er svo yndislega vel notuð að það er stórskemmtilegt, t.d. svona lounge-lyftu músík í umræðutímarifrildinu og léttur vals í klárlega blóðugasta atriði myndarinnar.
62 mín.
Ok, þetta var held ég eitt flottasta skot sem ég hef séð. Young-goon gekk annan „berserksgang“ og mikið djöfull var það flott:
Ef það sést ekki, þá stendur Young-goon við brúnna niðri til hægri og svoleiðis frussar fingurbyssukúlum yfir læknana. En þetta sjónarhorn hélt sér í 40 sekúndur og fylgdist með henni rölta um svæðið á eftir skelkuðum læknum, sem reyndu allt hvað þeir gátu að flýja undan kúlnahríðinni, en án árangurs.
*Innskot*
Ég er búinn að finna klippuna með þessu æðislega skoti:
Fyrstu 4 mínúturnar ættu að nægja.
70 mín.
Vélbyssumannvélmenni, sálarstuldir, draumsýnir, sjálfsmeiðingar og flugferð með maríubjölli í takt við kóreskt jóðl.
Hvað hefur þessi mynd ekki?
85 mín.
Myndin hefur orðið öllu rómantískari og fallegri en áður. Cyborginn og allsherjarþjófurinn - góð blanda?
Myndin er samt alls ekki verri fyrir vikið.
100 mín.
Úúú, Young-goon er búin að finna tilgang sinn, þann sem amma hennar hefur verið að reyna að segja henni. Nú verður þetta áhugavert. Ein (mjög glæsileg) vísbending:
106 mín.
Jahá, þá er þessu lokið.
Þetta er súrasta og bókstaflega geðveikasta ástarsaga sem ég hef séð. En ég verð eiginlega að segja að þetta er einnig ein sú besta. A.m.k. ein sú besta sem ég hef séð í dágóðan tíma.
Chan-wook Park er bara sjúklega góður. Það er eiginlega bara svo einfalt.
Eins og í fyrri myndum Parks er handritið gott og hugmyndin frumleg, allt útlit er frábært og myndatakan geðveik. Og svo eins og í Oldboy er tónlistarnotkunin æðisleg og jafnvel fyndin á köflum.
Við skulum enda þetta á einum ramma í viðbót.
Klárlega mynd sem ég get hiklaust mælt með!
* * * * af 5.
sunnudagur, 6. apríl 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Er einmitt búinn að útvega mér þessa, þarf greinilega að sjá hana.
Skemmtileg færsla - svona "running diary" er alveg ágætishugmynd þótt það sé kannski ekki alveg það sem koma skal í kvikmyndagagnrýni.
Framandi mynd, frumleg efnistök, ítarleg en jafnframt skemmtileg færsla. 9 stig.
Skrifa ummæli