þriðjudagur, 4. desember 2007
Veðramót
Maður fer alltaf á íslenskar bíómyndir með vissar væntingar í huga, eða í mínu tilfelli meira með vissan skort á væntingum. Ég geri einhvern veginn alltaf ráð fyrir því að íslenskar kvikmyndir séu miklu lakari en erlendar og er það hreinlega vegna þess að oftar en ekki hefur það reynst satt.
Veðramót fellur að miklu leyti utan þeirrar skilgreiningar, mér til mikillar furðu. Sagan fannst mér bara nokkuð heilsteypt og ég tók ekki eftir neinu sérstöku í sambandi við handritið sem fór eitthvað í taugarnar á mér.
En það er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið neitt sem fór í taugarnar á mér, því það voru element sem fóru virkilega í mig. Þá sérstaklega það sem hefur verið einn stærsti gallinn við íslenskar kvikmyndir: leikararnir.
Það sést alltaf svo óþægilega greinilega hvað íslenskir leikarar í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eru mikið að leika. (Það eru til undantekningar, en þær eru ekki margar). Til að mynda fannst mér Tinna Hrafnsdóttir ekki mjög trúverðug í sínu hlutverki og þannig séð ekki Atli Rafn heldur. Og við skulum ekki einu sinni ræða ungu krakkana (ég verð samt að taka fram að Ugla og Gunnur fannst mér skila sínu nokkuð vel - og Hera Hilmars á köflum).
Hilmir Snær var fínn og Jörundur var frábær. Hann var eini karakterinn sem virkilega stóð ljóslifandi fyrir mér í þessari mynd. Jörundur var karakterinn sinn, ekki hann sjálfur að leika karakterinn sinn.
En þrátt fyrir þetta var ég bara nokkuð sáttur við Veðramót. Ögn hæg á köflum, en kom efni sínu nokkuð vel til skila.
* * * af 5.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli