fimmtudagur, 6. desember 2007

3:10 to Yuma

Í 3:10 to Yuma leika Russell Crowe og Christian Bale (gagnkynhneigða) kúreka.
Með byssur.
Og drepa fólk.

Hvað gæti klikkað?

Það er mjög fátt sem gæti klikkað og ennþá minna sem gerði það. Ég get ekki með nokkru móti talist mikill aðdáandi vestra og ég var aldrei eitt þeirra barna sem fílaði kúreka í botn. En það er samt eitthvað svalt við villta vestrið, þ.e. þegar það inniheldur ekki Will Smith og járnkönguló.

3:10 to Yuma réttir nokkuð mikið við ímyndina af kúrekum og gerir þá svala aftur í stað tilfinningaríkra homma (bókstaflega). Ekki það að Brokeback Mountain sé léleg mynd - alls ekki - en kúrekar eiga að vera töff. Og hvaða leikarar gætu mögulega verið betri til þess að gera eitthvað svalt nema Maximus og Batman? Ég bara spyr...

Sagan segir sumsé frá Dan Evans (Bale), fátækum bónda, sem fellst á að taka þátt í því að gæta hins alræmda glæpamanns Ben Wade (Crowe) á meðan þeir bíða eftir fangalest til Yuma, þar sem réttað verður yfir Wade. En það reynist ekki auðvelt verkefni, bæði vegna klíku Wade sem gera allt hvað þeir geta til að frelsa foringja sinn, og Wades sjálfs sem hefur mikið sálfræðistríð við Evans. Útkoman er töff, blóðug og spennandi.

Sagan er nokkuð töff og handritið er nokkuð heilsteypt, nema þegar fer að nálgast lok myndarinnar. Þá komu nokkrar ákvarðanir ákveðinna persóna mér verulega á óvart og virtust ekki „meika“ nokkurt „sens“. Ég fékk svolítið á tilfinninguna að það hefði vantað almennilegt showdown í myndina svo þeir hentu bara einu inn í lokin. Nú veit ég ekki...

Myndatakan var bara fín og mörg landslagsskotanna voru ansi glæsileg sem og margir skotbardaganna.

Ég veit ekki alveg hvort ég sé alveg sammála imdb.com um að þetta sé 172. besta mynd allra tíma en góð er hún samt og hækkar leikstjórann James Mangold enn meira í álíti hjá mér. Hann var þó þegar kominn á lista með hinni æðislegu Identity.

En eins og ég segi: Christian Bale og Russell Crowe með byssur...

* * * 1⁄2 af 5.

Engin ummæli: