miðvikudagur, 5. desember 2007

The General


Kynni mín af þöglum myndum eru ekki ítarleg. Þau byrjuðu þegar ég sá The Gold Rush eftir Chaplin í kvikmyndafræði í 9. bekk og enduðu einhverjum mánuðum seinna þegar ég sá Silent Movie eftir Mel Brooks. Og það voru engar þöglar myndir þarna á milli. Og ég þekkti ennþá minna til Buster Keaton, þannig að ég var ekki viss um hvað ég var að fara út í þegar við horfðum á The General í tíma eitthvert miðvikudagseftirmiðdegið.

Sagan segir frá Johnny Gray, einföldum lestarstjóra, sem fellur í ónáð hjá ástinni sinni, Annabelle Lee, þegar honum er ekki hleypt í Suðurríkjaherinn í borgarastyrjöld Bandaríkjanna. En þegar lestinni hans er rænt, með Annabelle innanborðs, fer Johnny einn síns liðs á eftir þeim í von um að bjarga báðum ástunum í lífi hans: Annabelle og lestinni.

Í fyrsta lagi er þetta ein fyndnasta mynd sem ég hef séð. Buster Keaton er algjörlega frábær sem hinn klaufski, en samt sem áður lúmskt lipri, Johnny og það voru ófáar senurnar þar sem hann gerði ekki annað en að hlaupa fram og aftur um lestina sína þar sem ég skellti upp úr. Svo gott er látbragðið.

Það er voða lítið annað við myndina sem vakti einhverjar ákveðnar skoðanir hjá mér, hvort sem var góðar eða slæmar. Sagan er afskaplega einföld og tónlistin nokkuð skemmtileg. Ég verð reyndar að minnast á kvikmyndatökuna. Kannski er það reynsluleysi mitt af þöglum myndum sem kemur hér inn, en kvikmyndatakan kom mér mjög á óvart. Hún var hreinlega miklu betri en ég átti von á. Öll skot af lestarsenunum voru ferlega góðar og voru einhvern veginn miklu líkari því sem maður sér í dag en ég hafði búið mig undir. En eins og ég segi - kannski var þetta staðallinn þá og ég hef lifað í einhverri sjálfsblekkingu, ég veit það ekki.

The General er frábær klassík og gríðarlega eigulegt verk.
* * * * 1⁄2 af 5.

Engin ummæli: