Hin týpiska unglingagamanmynd, t.d. American Pie, hefur venjulega fallið undir ákveðna lýsingu: Klámfengin, svolítið fyndin (venjulega ekki meira en svolítið), svo sem skítsæmilega leikin og frekar ómerkileg í flesta staði. Superbad er að miklu leyti ekkert öðruvísi.
Superbad fjallar að vísu um ögn yngri stráka en American Pie gerir, en hefur sama grunnplott: Unglingsstrákar gera allt til þess að fá að sofa hjá. Hér lofar Seth (Jonah Hill) gellunni Jules því upp í ermina á sér að hann muni útvega áfengi fyrir partýið hennar. Til að gera það fá Seth og besti vinur hans, Evan (Michael Cera), sér til aðstoðar ofurasnalega súpernördann Fogell (Christopher Mintz-Plasse) sem er svo heppinn að geta útvegað sér fölsuð skilríki. En þegar Fogell er laminn í áfengisversluninni og tveir lögreglumenn kallaðir á svæðið forða Seth og Evan sér og reyna að útvega áfengið upp á eigin spýtur á meðan Fogell fer á skrautlegan rúnt með þessum léttsnarklikkuðu lögreglumönnum.
Margar uppákomurnar eru ansi ófrumlegir og marga brandarana hefur maður heyrt oft áður, en þeir virka samt ágætlega. Er þá aðallega að þakka skemmtilegum leik. Þar verður sérstaklega að taka fram lögreglumennina tvo, leikna af Bill Hader og Seth Rogen. Þeir eru klárlega skemmtilegustu karakterar myndarinnar og það fer aldrei á milli mála að þeir voru gerðir í akkúrat þeim tilgangi.
Þegar uppi er staðið þá er þetta ekkert nema venjulega unglingagamanmynd, nema ögn fyndnari. Það er fátt sem hún skilur eftir sig, ef nokkuð, en ég fór líka ekki á hana til þess að sjá eitthvað áhrifaríkt listaverk. Ég fór á hana til að hlæja og það gerði ég. Nokkuð oft m.a.s.
* * * 1⁄2 af 5.
fimmtudagur, 6. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli