miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Mr. Brooks


Skellti mér í bíó á Mr. Brooks fyrir nokkru síðan (16. september) og vissi ekki nákvæmlega hvað ég var að fara að sjá. Átti allra helst von á, miðað við treilerinn, einhverri sálfræðidrama um togstreituna milli fjölskyldu-/atvinnumannsins Mr. Brooks og fjöldamorðingjans Mr. Brooks.
Að vissu leyti fékk ég það sem ég vildi. Auk þó nokkurs magns af hasar.

Nú myndu margir gera ráð fyrir því að það væri bara skref til hins betra, en svo var ekki raunin. Mesti hasarinn kom nefnilega Mr. Brooks ekkert við. Hann snerist að mestu leyti um söguna af Demi Moore, framasækinni lögreglukonu sem stendur í erfiðum skilnaði. Verst að sú hliðarsaga tók of mikinn tíma miðað við áhrif hennar á aðalsöguna um Mr. Brooks. Og það fór örlítið í mig.

En ef við lítum nú framhjá Demi og hennar veseni og einblínum á Mr. Brooks sjálfan þá horfir allt öðru og miklu betra við. Mr. Brooks er sumsé virtur viðskiptamaður en jafnframt alræmdur og snargeðveikur fjöldamorðingi. Kevin Costner fannst mér ferlega svalur sem Brooks og var eitthvað svo skemmtilega hjartalaus og kaldur, en samt svo eðlilegur. Að vissu leyti eins og Dexter í samnefndum snilldarsjónvarpsþáttum sem ég mun taka fyrir seinna.
Ekki er William Hurt síðri sem Marshall, ímyndaður og alveg jafn sturlaður samstarfsmaður Brooks.
Dane Cook kom líka skemmtilega á óvart sem léttklikkaður ljósmyndari sem vill ekkert meira en að prófa að myrða einhvern og nýtir sér Mr. Brooks til að koma því í verk. Nokkuð betri hér en í t.a.m. draslinu Employee of the Month.

Allt lúkk á myndinni er nokkuð myrkt og/eða stílhreint - mjög mikið eins og karakter Mr. Brooks. A.m.k. á yfirborðinu. Ég man eiginlega voða lítið eftir öðru í sambandi við myndina, en þar sem ég geri það ekki þá má ætla það að það hafi hvorki verið sérstaklega frábært né arfaslakt.

En heildarfílingurinn lagðist vel í mig og frammistaða Costners og Hurts gera því þessa mynd það góða að hún verðskuldar hin ágætustu meðmæli mín.

* * * * af 5.

Engin ummæli: