miðvikudagur, 5. desember 2007
Shoot 'em Up
Clive Owen treður gulrót upp í kjaftinn á glæpamanni og kýlir henni svo út um hnakkann á honum með orðunum "Eat your vegetables".
Það líða kannski 40 sekúndur áður en þessi fyrsti gæi er drepinn í snilldinni sem er Shoot 'em Up, og þvílík leið til að drepa einhvern. Það þarf líklega ekki að taka það fram að á næstu 86 mínútunum drepur Clive Owen, sem leikur sjúklega reiðu snilldarskyttuna Smith, tugi manna og er hvert morðið skrautlegra en það sem á undan fór.
Shoot 'em Up er svo yndislega over the top að ÖLLU leyti að í stað þess að vera klisjukennd og hallærisleg verður hún ótrúlega fyndin. One-linerar eru alls staðar og öllum lögum eðlisfræðinnar er grimmilega misþyrmt til þess eins að gera Smith svalari en Chuck Norris og Steven Seagal til samans.
Til dæmis má nefna það þegar Smith klessir bílnum sínum, beltislaus, beint framan á sendiferðabíl glæpamannanna, hendist út um rúðuna og inn í sendiferðabílinn og skýtur alla sem eru þar inni í örfáum skotum og segir: "So much for seatbelts". Það var klappað í bíósalnum yfir þessari snilld - eðlilega.
Sagan segir sem sagt frá hinum reiða Smith, sem á sér afar dularfulla fortíð, sem lendir í því að bjarga barni frá einstaklega óhæfum glæpamönnum, sem leiddir eru af hinum ofurilla Hertz (Paul Giamatti). Smith fær svo kynþokkafullu vændiskonuna Donnu Quintano (Monica Bellucci) sér og ungbarninu til aðstoðar.
Afskaplega frumlegt og djúpt plott.
En manni verður svo algjörlega sama up söguþráðinn því allar skynsamlegar hugsanir manns drukkna í one-linerum, skotbardögum og kynlífssenum - jafnvel öllu þrennu á sama tíma. ("Talk about shooting your load!")
Það er langt síðan ég hef skemmt mér svona hrikalega vel í bíó og þegar öllu er á botninn hvolft - er það ekki helsti tilgangurinn með bíómyndum?
* * * * 1⁄2 af 5.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Frábær færsla. Fær mig til þess að dauðlanga til þess að sjá þessa mynd.
Skrifa ummæli