Það eina sem er lengra en titillinn á þessari mynd er myndin sjálf. Hún er nefnilega litlar 160 mínútur og ekki með nokkru móti sú hraðasta. Fólk var farið að dæsa og andvarpa meira og meira og hærra og hærra eftir því sem leið á myndina og ég skildi það fullkomlega. Ég var samt sem áður ekki einn dæsaranna.
Myndin fjallar um síðustu árin í lífi útlagans Jesse James (Brad Pitt) og sambandi hans við einfeldninginn Robert Ford (Casey Affleck) sem hefur ídólíserað Jesse alla sína æfi. Það þarf varla að taka það fram að Robert Ford endar auðvitað á því að myrða Jesse vegna öfundar, reiði og græðgi; 3 dauðasyndir á einu bretti, takk fyrir. Og eins og ég minntist áður á þá tekur myndin sér mjög góðan tíma í að útskýra alla málavöxtu, sem og til þess að sýna löng skot af kornökrum, snjóbreiðum, fjöllum og shitload af skýjum.
Landslagsmyndirnar fóru samt alls ekkert í taugarnar á mér, ólíkt öðrum bíógestum sem dæstu enn meira þegar einn akurinn í viðbót birtist á tjaldinu, og mér fannst þessi landslagsskot bara ofboðslega falleg og glæsileg. Og með tónlist Nick Cave og Warren Ellis urðu þau bara enn fallegri.
Það fór þó aðeins meira í taugarnar á mér tíminn sem fór í allar litlu aukapersónurnar í myndinni. Það hefði vel verið hægt að klippa niður nokkur atriðin þeirra og sparað þar með dágóðan tíma, eða þá henda inn sólarlagsmyndum.
Casey Affleck sýnir það hér, og ekki í fyrsta sinn, að hann er miklu betri en stóri bróðir sinn. Casey er mjög trúverðugur sem Robert Ford og það er sama hvað Robert Ford er mikill heigull og aumingi, maður finnur alltaf svolítið til með honum. Nema eftir að hann drepur Jesse, þá er hann hrokafullur aumingi og skræfa og maður bíður bara eftir því að hann verði sjálfur myrtur. Þar koma kannski líka inn 150 mínúturnar sem höfðu liðið. Brad Pitt er einnig ferlega góður sem Jesse James. Ofsóknaræðið og netta geðveikin verður mjög trúverðug.
Til að gera langa sögu um mjög langa sögu mjög stutta:
Of langt en annars glæsilegt verk.
* * * * af 5.
föstudagur, 7. desember 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Umsögn um blogg
18 færslur
Flestar mjög fínar og nokkrar sem mætti alveg telja sem fleiri en eina færslu.
8,0
Skrifa ummæli