sunnudagur, 14. október 2007

Helvetica


Þegar ég rak augun í tilkynningu um Helvetica þá ákvað ég samstundis að þetta væri mynd sem ég þyrfti að sjá. Ekki vegna þess að ég er svo mikill áhugamaður um leturgerðir og hönnunarsögu. Þvert á móti. Ég hreinlega varð að fara á hana til að geta sagst hafa farið á heimildarmynd um font. Ég var líka bara ansi forvitinn að vita hvernig hægt væri að gera eins og hálfs tíma heimildarmynd um font.

Myndin segir sem sagt frá sögu leturgerðarinnar Helvetica og áhrif hennar á heim hönnunar, sem voru nokkuð mikil. Fyrst er rætt við hina ýmsu leturgerðarmenn, bæði þá sem komu að gerð Helvetica sem og aðra sem sögðu einfaldlega skoðanir sínar á þessum merka fonti. Einnig er mikið rætt um áhrifin sem Helvetica hafði á auglýsingaheiminn, en Helvetica var svo ferskur fontur og "straight to the point" að í kjölfar hans spratt um ný tegund auglýsinga. Eftir því sem líður á myndina er síðan farið örlítið út fyrir sviðið og rætt um almenna hönnun.

Það sem kom mér mest á óvart í sambandi við þessa mynd var að hún var nokkuð áhugaverð. A.m.k. miklu áhugaverðari en ég hafði búið mig undir, því - ég meina - hún er um font. Það var einnig ansi skemmtilegt að heyra með hve miklum eldmóði hönnuðurnir töluðu um Helvetica. En það þurfa líklega einhverjir að hafa áhuga á þessum hlutum.
Myndin dettur þó niður á köflum og maður átti það til að líta á úrið við og við, enda kannski erfitt að búa til mynd um efni sem þetta sem heldur manni hugföngnum í 90 mínútur. Þ.e.a.s. nema að maður sé mikið inni í þessum bransa.

Á heildina litið var Helvetica bara nokkuð áhugaverð og hin sæmilegasta skemmtun. Þrátt fyrir það efast ég stórlega um að ég muni nokkurn tímann nenna að horfa á hana aftur. Því hún er nú einu sinni bara um font.

* * 1⁄2 af 5

Engin ummæli: