mánudagur, 17. september 2007

Topp 10 listinn (1/2)

Mér finnst ég verða að byrja á því að taka það fram að þessi list er alls ekki 100% öruggur. Mér finnst hreinlega of erfitt að gera upp á milli æðislegra mynda. Ég tek aðallega bara mið af því hvort þær séu einmitt það: æðislegar. Ég fer ekki svo langt í að tala um 'æðislegri' myndir og læt þá flokkun oftast vera.
En nú gerði ég mitt besta til að troða einhverjum myndum í einhver sæti og ég er nokkuð viss um að þessi listi muni breytast yfir veturinn, þar sem það er mjög hugsanlegt að ég sé að gleyma einhverjum gullmolum.

Hefst nú lestur:

10. Das Leben der Anderen

Ég fór á þessa mynd í sumar með afar misspenntu föruneyti og við vissum eiginlega ekki alveg hvað við vorum að fara að horfa á. Það eina sem ég vissi fyrir fram var að hún var þýsk og samkvæmt einhverri tilvitnun átti hún að vera „Besta mynd í heimi“.
Það er alltaf mjög hættulegt að fara einungis með þá vitneskju inn í kvikmyndahús en ég slapp með skrekkinn í þetta skiptið og gott betur en það. Þetta er nefnilega ein besta mynd í heimi. A.m.k. nógu góð var hún til að rata inn í þennan lista minn.
Það er eitt sem mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að sjá þegar ég horfi á myndir gerðar utan Bandaríkjanna, og það er hve mikið maður er farinn að venjast asnalegheitunum og ruglinu í Hollywood. T.d. var ég lengi að bíða eftir bílasprengjunni og hrottalega grafísku yfirheyrslunum. En nei, þær komu ekki, mér til mikillar gleði.
Hágæða mynd með frábæru plotti og framúrskarandi leik.
Getur það klikkað?

9. El laberinto del fauno

Ég hafði beðið eftir þessari mynd með mikilli eftirvæntingu alveg frá því ég sá trailerinn í fyrsta sinn. Mér fannst strax eitthvað svo heillandi við þennan spænska töfraheim, sem sýndur var í þessar 40 sekúndur. Þess vegna var ég himinlifandi þegar Græna Ljósið ákvað að taka hana til sýningar.
Ég var alveg jafn ánægður þegar ég kom út úr bíósalnum. Ég gat ekki, sama hve mikið ég reyndi, fundið nokkurn galla við þessa mynd.
Leikurinn var frábær (sérstaklega Sergi López sem sadistaherforinginn Vidal), sagan flott, tónlistin gullfalleg, myndatakan nógu góð til að ég tók eftir henni (sem er mjög sjaldgæft í mínum bókum) og allur töfraheimurinn glæsilegur. T.d. er föla, mjóa, barnamyrðandi viðundrið r eitt svalasta skrímsli sem ég man eftir í kvikmynd.
Klárlega mynd sem maður þarf að eiga.

8. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain

Ein rómantískasta mynd sem ég hef séð og jafnframt ein sú besta.
Það fyrsta sem ég vil minnast á í sambandi við þessa mynd er tónlistin, því Amélie inniheldur fallegasta soundtrack sem ég hef heyrt (kannski fyrir utan Lion King). Píanóverkin sem Yann Tiersen hefur samið fyrir þessa mynd eru nógu góð ástæða út af fyrir sig til að elska þessa mynd. En ég mæli samt með því að kaupa ekki *bara* soundtrackið - myndin er alveg peningsins virði.

7. The Lion King

Án nokkurs vafa mesta nostalgíumyndin á listanum. Ég hef horft á hana nokkuð oft síðan ég sá hana 6 ára gamall og ég kemst ekki hjá því að verða alltaf 6 ára þegar ég horfi á ævintýri Simba. Hvernig getur nokkur maður gleymt hýenueltingarleiknum í fílakirkjugarðinum, pödduátinu með Tímon og Púmba og logandi 'showdowninu' við Skara? Að ógleymdu sorglegasta atriði kvikmyndasögunnar - dauða Múfasa.
Mamma Bamba má eiga sig og Roberto Benigni má fórna sér eins og hann vill, það er ekkert sem toppar dauða Múfasa í mínum bókum. Og nákvæmlega af þeirri ástæðu er Lion King ein áhrifamesta mynd sem ég hef séð.

To be continued...

Engin ummæli: