Ég ætla bara að skella mér beint í pönchlínu færslunnar: Mikið djöfull er þetta góð mynd!
Ég var voða lítið búinn að kynna mér myndina fyrirfram (fyrir utan einkuninna á IMDB sem var náttúrulega ekki slæm hvatning) og vissi því voða lítið hvað ég var að fara að sjá. Ég hafði kannski ekki sem mestu trú á Coen bræðrum eftir Ladykillers klúðrið en ákvað samt að gefa þeim séns þar sem O Brother, Where Art Thou, The Big Lebowski og Fargo eru ekkert nema snilld. Mikið djöfull er ég sáttur við þann séns!
Til að „ríkappa“ söguþráðinn í sem fæstum orðum, þá finnur Llewelyn Moss (Josh Brolin) tösku fulla af peningum eftir misheppnaða eiturlyfjasölu og er að flýja undan svalasta vonda kalli síðustu ára(-tuga, jafnvel), Anton Chigurh (Javier Bordem). Tommy Lee Jones leikur svo lögreglustjórann Ed Tom Bell sem dandalast svolítið utan aðalatburðarásarinnar. Afskaplega einfalt plott í sjálfu sér en sjitt, hvað það virkaði.
Allt útlit myndarinnar er verulega töff. Allt tómlega, þurra landslagið í eyðimerkuratriðunum, einföldu og þurru mótel- og hótelherbergin og allar persónur líta verulega vel út. Aldrei hefur nokkur maður púllað jafn ljóta hárgreiðslu en verið jafn svalur og Javier Bordem. Sem færir mig að aðalaðdáunarefni myndarinnar.
Anton Chigurh er svalasti vondi kall síðan Hannibal Lecter. Og þá á ég við „Silence of the Lambs“- Hannibal Lecter, ekki „Red Dragon“- Hannibal Lecter. Hann er svo yndislega sjúkur og sálarlaus að maður getur ekki annað en fyllst lotningu fyrir svo miklu illmenni. Ég man ekki eftir að hafa séð Javier Bardem nokkurn tímann áður en ég mun aldrei gleyma því nafni aftur, svo góður var hann. Ég meina, hvernig geturðu ekki borið óttablandna virðingu fyrir þessum manni:
Einskær snilld. Svo sannarlega að Óskarnum sínum kominn.
Og það er öll myndin, í raun og veru. Handritið er frábært. Allur díalógur verulega flottur en samt hálfkjánalega hnyttinn eins og Coen bræður eiga til að verða. Minnti mig gjarnan á Fargo - sem er ekki vond tenging.
En það var einn gígantískur, svartur, svartur blettur á sýningunni á hverjum hvorki Coen bræður né nokkur leikaranna bera einhverja ábyrgð. Í frábæru hótel-showdowni sem er eflaust eitt af mest spennandi atriðum sem ég man eftir skríður Josh Brolin út um glugga í ofvæni og stemning er myrt svo kaldranalega að það var eins og að stappa á kettlingum.
Þetta var versta hlé sögunnar.
En ég verð samt að vanda orðalag mitt hér því annars gæti ég misskilist, vegna þess að ÖLL hlé eru ekkert nema argasti viðbjóður og mesti moodkiller sem fyrirfinnst! Og af hverju? Svo fólk geti fengið sér annan popppoka og lakkrísreimar. Ég hef lengi hatað hlé, eins og sambíóferðafólk mitt veit mætavel og kemst að aftur og aftur í hvert einasta sinn sem ljósin kvikna og listaverkið á tjaldinu skemmt í þágu sætinda og græðgi.
En allt í lagi, ég skil svo sem það að hafa hlé á myndum sem eru 180 mínútur og lengri því sumir geta hreinlega ekki haldið í sér svo lengi og eru greinilega ekki nógu forsjálir til að létta á sér fyrir helvítis sýninguna. En allt í lagi, ég skil það. En þegar myndir undir þeirri lengd eru klipptar í tvennt bara til að græða nokkra þúsundkalla er bara skandall.
Ég meina, þetta er eins og að fara út að borða og í miðju kafi er maturinn tekinn af þér og þér bent á að salatbarinn er nú opinn. 10 mínútum síðar færðu svo matinn aftur og borðar nú kaldan og óspennandi afganginn.
Að fólk skuli taka þátt í svona kjaftæði, það skil ég ekki.
Nú ímynda ég mér bara hve góð myndin hefði verið hefði mest spennandi hasarsena síðustu ára ekki verið fleyguð af spjallandi bíógestum og leiðindarauli Hjálma í hátalarakerfinu. Þrátt fyrir það nær hún samt í fullt hús stiga í mínum bókum, sem sýnir bersýnilega hve geðveik þessi mynd er. Og bara til að endurtaka hve frábær Javier Bardem er:
Djöfulsins snilld.
* * * * * af 5.
mánudagur, 3. mars 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Snilldarmynd. Fín færsla. Hjartanlega sammála með hléin - ætti að banna þetta helvíti. Að minnsta kosti ættu menn að hafa eina sýningu þar sem ekki er hlé, eins og gert var með 7-sýningarnar áður fyrr.
5 stig.
Endurskoðuð stigagjöf: 7½ stig.
Skrifa ummæli