mánudagur, 3. mars 2008

Funny Games (1997)

Jæja, þar kom að því að maður fór að vinna upp myndirnar sem maður missir af í mánudagstímunum, þ.a. ég geri ráð fyrir því að ég fái loksins smá uppreisn æru í mætingarmálum. Þetta er sumsé fyrsti hluti þess ferlis.

Ég var pínulítið áhyggjufullur þegar ég tvíklikkaði á .avi fælinn sem ég náði mér í, enda var ég búinn að lesa nokkrar færslur samnemenda minna og hið massíva yfirdrull sem myndin fékk á bloggheimum og því leist mér ekki á blikuna. En ég horfði nú á hana samt sem áður.

Ég komst að því eftir nokkrar mínútur að ég hafði þegar horft á treilerinn fyrir bandarísku endurgerðina og hafði þá ákveðið að þetta væri áhugaverð mynd en núna, eftir að hafa séð originalinn er ég ekki viss þar sem endurgerðin virðist vera *nákvæmlega* eins. En ég er ekki þar með að segja að mér hafi fundist originallinn lélegur - mér finnst bara óþarfi að fara tvisvar sinnum á sömu myndina í bíó á mismunandi tungumáli, ég get það á DVD-disknum.

Myndin byrjar verulega vel - alveg frá því titillinn birtist og John Zorn er blastaður í klessu. Mjög skemmtilegur kontrast við klassísku tónlistina sem hafði opnað myndina á rólegan hátt. Hjónin Anna (Susanne Lothar) og Georg (Ulrich Mühe) fara sumsé ásamt syni sínum, Georg (lítill austurískur strákur sem lítur út eins og stelpa), í glæsilegt sumarhús. Þar eru þau heimsótt af tveimur ungum, kurteisum drengjum (altént í fáránlega stuttum stuttbuxum) sem koma í von um að fá lánuð egg. En þeir eru öllu truflaðari en virtist í fyrstu og taka þeir fjölskylduna í gíslingu í einhverjum sjúkum sadistaleik sínum.

Hér eru fyrstu 5 mínútur myndarinnar, sem mér finnst segja afskaplega mikið um hvernig myndin er - róleg en truflandi.


Á þessum kafla er myndin hreinlega verulega góð. Hún er svo raunveruleg, eitthvað, þannig að maður hefur afskaplega mikla samúð með fjölskyldunni, á meðan Paul og Peter fótbrjóta Georg eldri, neyða Önnu til að afklæðast og troða koddaveri yfir höfuðið á Georg yngri. Verulega truflandi.
Það er samt farið afskaplega rólega í allt þetta, þ.a. maður fær aldrei þennan Hollywood hasarfíling, sem er svo hættulegur, heldur verður þetta bara sálfræðilega átakanlegt og ógnvekjandi. En það er ekki þar með sagt að hún sé ekki spennandi, því þegar Georg yngri sleppur út og fer að leita að hjálp með hvítklæddan Paul á eftir sér er verulega taugatrekkjandi. Sérstaklega var ég hrifinn af því þegar Paul kveikir á John Zorn og leitar að Georgi í húsi nágrannanna.
Hvað get ég sagt? Ég fíla John Zorn lagið í myndinni.

En myndin nær ekki að viðhalda þessum taugatrekkjandi sjarma sínum út alla myndina. Því seinni helmingur myndarinnar, allt frá sjúklega langa og hæga stofuskotinu, verður nákvæmlega það - löng og hæg. Ég geng nú ekki svo langt að kalla seinni helminginn ömurlegan eða segja að hann verðskuldi neikvæða stjörnugjöf, en hann var verulega ómerkilegur miðað við fyrri hlutann. En ég verð þó að viðurkenna að mér fannst langa skotið nokkuð töff, þó það væri hægt... mjög hægt.

*Spoilerar framundan*

En greinilega ólíkt mörgum var ég verulega að fíla endinn á myndinni. Ég hef alltaf lúmskt gaman að myndum sem enda ekki eins og að því virðist allar myndir gera. Það var, jú, kannski ögn ótímabært að drepa strákinn fyrstan og lama þannig spennuna, en það var án nokkurs vafa öðruvísi. Og oftar en ekki er ég hrifinn af 'öðruvísi'. Ég var frekar hræddur um þegar Paul og Peter eru búnir að myrða Georg eldri og eru með Önnu bundna á bátnum að nú hlyti Hollywood-stíllinn að ná til Haneke og Anna gengur berserksgang og nær fram einhverri epískri hefnd.
En nei.
Þeir hreinlega taka af henni hnífinn og hrinda henni út í vatnið og drekkja henni.
Góð lausn.

Mér fannst ég ekkert þurfa neina sérstaka ástæðu fyrir leiknum þeirra. Mér fannst alveg nóg að vita að þessir gæjar eru bara snarklikkaðir sadistar. Og síðasta atriðið þegar þeir banka einfaldlega upp á hjá næstu fjölskyldu og biðja um egg - þá varð ég sáttur. Ég er bara nokkuð þreyttur á þessum klassísku, idiot-proof, svart á hvítu, lokuðu, góðu endum. Þ.a. þegar myndir enda illa, þá er ég sáttur - svona oftast nær.

En það var eitt sem fór virkilega í taugarnar á mér. Það var kannski ekkert skelfilega pirrandi í sjálfu sér, en það var bara svo óþarfi að ég skil ekki alveg af hverju því var haldið inni. Ég er að sjálfsögðu að tala um þennan fjórða vegg sem hverfur við og við. Það er bara svo kjánalega óþarft. Sérstaklega lína Peters: „We're not up to feature film length yet. You want a real ending with plausible plot development.“ og helvítis fjarstýringardæmið.
Ég geri ráð fyrir því að pælingin hafi verið að það að kvikmynda „leikinn“ þeirra leggði einfaldlega ennþá meiri áherslu á að þetta var bara einhver sick leikur hjá þeim. Eða jafnvel það að Peter fannst hann vera kvikmyndaður og væri þess vegna að skapa áhugavert og truflandi myndefni. Þ.e.a.s. annað hvort var leikurinn orsök að kvikmyndinni eða afleiðing hennar. En hvort heldur sem er, þá fannst mér það bara óþarfi og hálfkjánalegt.
Og *það* fannst mér vondi punkturinn við þessa annars verulega töff mynd.

* * * af 5.

2 ummæli:

Siggi Palli sagði...

Mjög góð færsla. Ég held þú sért á réttri leið með pælingum þínum í fjórða veggnum. Ég skildi þetta a.m.k. að hluta til þannig að Peter og Paul séu bara það firrtir að þeir þekkja ekki í sundur raunveruleika og bíómynd, og að myndin eigi að lýsa þeim "veruleika".

5 stig.

Siggi Palli sagði...

Endurskoðuð stigagjöf: 7½ stig.

Og ég setti mætingu hjá þér í þessum tíma.