fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Untraceable

Ef þú átt eftir að sjá Untraceable og ef þið langar ennþá að gera það þá mæli ég gegn því að lesa lengra því eftir þessa færslu mun þig ekki langa til þess lengur.
Nei, reyndar mæli ég með því að lesa áfram, því þá geturðu sparað þér tímann og peninginn sem ég eyddi í að horfa á þetta rusl. Þetta kvöld missti ég 900 krónur og 100 mínútur af lífi mínu sem ég mun aldrei fá aftur. Og fyrir hvað?

(En svona í alvörunni, þá er þessi færsla uppfull af spoilerum.)

Untraceable hljómaði í fyrstu afskaplega vel og treilerinn sannfærði mig svo um að sjá hana. Vondur maður rænir fólki, setur það í nett truflandi pyntingartæki og sýnir það allt saman yfir netið á heimasíðunni www.killwithme.com. En það er ekki nóg fyrir svona vondan mann. Hann tengir nefnilega vefsíðuteljarann við pyntingartólið og eftir því sem fleiri horfa á síðuna, því hraðar deyr fórnarlambið. Þessi hugmynd fannst mér helvíti töff. En sagan er þar með ekki öll sögð. Diane Lane leikur nefnilega FBI-útsendaran Jennifer Marsh úr deild tölvuglæpa og reynir hún, ásamt hinum ótrúlega óspennandi rannsóknarlögreglumanni Eric Box (Billy Burke) og krúttlega comic-relief kollega hennar Griffin Dowd (Colin Hanks), að hafa uppi á vonda internetmanninum.

Ég held í alvörunni að mér hafi sjaldan, ef ekki aldrei, verið jafn ógeðslega sama um karakterana í bíómynd. Ég hafði einhvern veginn nákvæmlega enga samúð með neinum, nema þá kannski pínulítið með fórnarlömbunum á meðan þau voru að geispa golunni í sýrubaðinu/ljóskastarabaðinu/blóðbaðinu. En það er bara því pyntingaaðferðirnar voru nett truflandi.

Meðan ég sat úti í sal og lét mér leiðast gat ég sagt til um nánast hverja einustu framvindu sögunnar áður en hún gerðist, því maður hefur séð þær flest allar áður, og þær sem voru nýjar, voru það ómerkilegar að það kom ekkert á óvart að þær höfðu ekki verið notaðar áður:
•Að sjálfsögðu fattar morðinginn að Diane Lane er að stýra rannsókninni og fer því að bögga hana og dóttur hennar (já, hún er einstæð móðir - Shocker).
•Að sjálfsögðu er Colin Hanks rænt og myrtur í beinni útsendingu til að gera hefndaraðgerðir Diane Lane enn persónulegri.
•Að sjálfsögðu valdi internetillmennið fórnarlömb sín ekki af handahófi heldur höfðu þau öll komið nálægt dauða föður hans.
•Og að sjálfsögðu er Diane Lane sjálfri rænt. En þar sem þetta er Diane Lane þá getur hún auðvitað bjargað sjálfri sér og yfirbugað vefskúrkinn.

Eins og þið sjáið - allt algjörlega ófyrirsjáanleg og frumleg söguelement.

En öll ofangreind atriði eru frábær miðað við síðasta skot myndarinnar sem er að ég held eitt það hallærislegasta sem ég hef nokkurn tímann á ævi minni séð. Því eftir að hún yfirbugar netníðinginn í beinni útsendingu fyrir framan milljónir áhorfenda tekur hún upp lögregluskjöldinn sinn, treður honum framan í myndavélina og horfir ofboðslega hörð á almúgann sem er nú samsekur að nokkrum morðum.
Það eina sem hefði getað gert þetta hallærislegra var ef það hengi bandarískur fáni á veggnum fyrir aftan hana.

En svona í þágu almennings vil ég nú taka saman þessa mynd í örfáum orðum:
Óspennandi og ómerkilegt, hallærislegt drasl sem klúðrar góðri hugmynd með ömurlegu handriti og slöppum leik.

1⁄2 af 5.

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Cloverfield

Cloverfield teaserinn er trailer sem svínvirkaði á mig. Ég sá hann fyrst fyrir einhverju ári eða svo og hugsaði strax að þetta væri áhugaverð mynd. Og ef hún væri ekki góð þá væri hún a.m.k. helvíti flott, þannig að mér fannst ég vera nokkuð öruggur með að vera ánægður, a.m.k. að einhverju leyti.

Það sem heillaði mig við trailerinn var líklega það sama og átti að heilla almenning: Vídeókameru-lúkkið og raunveruleikafílíngurinn. Þetta var bara svo töff þegar ég horfði á þetta í fyrsta sinn að ég hreinlega varð að sjá þessa mynd. Sem ég og gerði. Sem er einmitt ástæðan fyrir þessu röfli mínu.
Og hananú.

Vídeókamerulúkkið heldur sér í gegnum alla myndina og allt gert til að gera það sem trúverðugast. T.d. er myndin ekki nema 85 mínútur og rúmast því á DV spólu og síðan eru á stöku stað sýnd lítil brot af því sem "var á spólunni" áður en sagan okkar hefst, sem skapar um leið eins konar subplott.

*SPOILER ALERT*

Það sem fór kannski einna helst í mig var hve fljótt þeir sýndu skrímslið okkar. Þeir sýndu það reyndar ekki vel en ég hefði alveg verið sáttur við að vera skilinn eftir í myrkrinu í smástund í viðbót. En þetta var algjörlega minniháttar vandamál í mínum augum. En ekki má svo gleyma litlu börnum stóra skrímslisins. Þau voru kannski ekki þau frumlegustu í útliti en eltingarleikurinn í lestargöngunum fannst mér það intense að ég fyrirgaf hönnunina á þeim algjörlega!

En svo ég endurtaki sjálfan mig, þá er raunveruleikafílíngurinn við Cloverfield það sem er hvað svalast við hana. Þess vegna virkar helvíti vel að nota leikara sem a.m.k. ég man ekki eftir að hafa séð nokkurn tímann áður. En þau skila sínu ágætlega og draga myndina ekkert niður frá því að vera með skemmtilegri skrímslamyndum sem ég hef séð.

Godzilla hvað?

* * * 1⁄2 af 5.

laugardagur, 9. febrúar 2008

The Mist

The Shawshank Redemption, The Green Mile og The Majestic. Þrír titlar sem voru til þess að ég beið þessarar myndar með gríðarlegri óþreyju. Ekki var verra að sjá nafnið hans Stephen King, þar sem síðustu Darabont/King myndir eru einar bestu myndir sem ég hef séð.

The Mist er kannski ekki alveg eins stórkostleg og The Green Mile og The Shawshank Redemption (enda er verulega erfit að toppa þær) en hún er samt sem áður helvíti góð - ein af betri hryllingsmyndum sem ég hef séð í talsverðan tíma.

Thomas Jane er David Drayton, hamingjusamur fjölskyldufaðir og listamaður, sem fer með syni sínum og leiðinlegum nágranna í stórmarkað litla bæjarins sem þeir búa í. Þaðan snúa þeir svo ekki auðveldlega því á meðan þeir eru þar inni leggst afar dularfull og sjúklega þykk þoka yfir bæinn. Svo þegar inn kemur að því virðist snarklikkaður gaur með blóðnasir röflandi um "eitthvað" í þokunni fer gamanið hjá okkar fólki að kárna og spennan að magnast.

Frank Darabont nær vel að skapa miklu spennu í kringum einangrunina sem fólkið í versluninni er nú komið í og paranojan sem leggst eðlilega yfir fólkið verður nokkuð sannfærandi og trúverðug.

En atriðin sem tengjast "einhverju" í þokunni eru klárlega ein mest intense atriði síðustu ára. Í fyrsta lagi atriðið inni í vörumóttökunni þegar griparmahelvítið rífur The Sherminator í tætlur og svo út. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en atriðið var búið (kannski því að á meðan atriðinu stóð var ég upptekinn við að horfa á The Sherminator rifinn í tætlur) að í atriðinu var engin tónlist og það var örugglega sú staðreynd sem gerði atriðið svo einstakt. Venjulega er allri aksjón drekkt í aggressívri og epískri tónlist en hérna er henni algjörlega sleppt, eflaust til að leggja áherslu á hve ein þau eru í raun og veru.

Næsta sætisbrúnarsena kom stuttu seinna þegar þau senda eitthvað manngrey í reipi út í þokuna. Það var bara eitthvað við þá senu sem fór virkilega í mig og aftur var engin tónlist.
Það var ekki fyrr en gígantísku flugurnar komu sem ég heyrði fyrstu nóturnar í myndinni og það var n.b. eftir hlé (sem ég hata ennþá - en það er efni í aðra öllu stærri og reiðari færslu). En jafnvel þá var hún mjög lítil og smekklega notuð.
En eftir því sem dró á myndina varð ég alltaf hræddari og hræddari um að endirinn yrði bara eitthvað búllsjitt, eins og svo oft vill verða með hryllingsmyndir en ég vil meina að The Mist hafi bara sloppið nokkuð vel.

Ef við lítum á fólkið í versluninni kom Thomas Jane mér ánægjulega á óvart sem David Drayton, þar sem hann sýndi öllu meiri dýpt en í The Punisher þar sem hann er eiginlega bara vondur Vin Diesel með hár. En ekki má gleyma aukakarakterunum, sem eru jafnskrautlegir og þeir eru margir og marga hverja hefur maður séð nokkrum sinnum áður: Þar var að finna litla, krúttlega, feita afgreiðslumanninn sem er í raun miklu harðari en hann virðist vera, nýju kynþokkafullu kennslukonunna, kolklikkuðu trúarofstækiskonunna (leikna afar vel af Marcia Gay Harden), pirraða svarta manninn og hörkutólið sem er í raun drykkfelldur aumingi. Vel fannst mér valið í öll þessi hlutverk og þetta bara gekk allt saman upp, einhvern veginn.

Sumsé þegar öllu er á botninn hvolft er The Mist hin prýðilegasta hryllingsspennumynd og eflaust með þeim betri sem gefnar hafa verið út síðustu ár!

* * * * af 5.

föstudagur, 8. febrúar 2008

National Treasure : Book of Secrets

Nicolas Cage leggur af stað í stórhættulegan leiðangur um helstu sögustaði Bandaríkjanna í leit að ótrúlega mikilvægum pappír (sem gæti vel verið mikilvægasti pappír heimsins) en þarf á sama tíma að reyna að vinna ástir óvenjusögufróðrar konu, hlusta á afskaplega pirrandi brandarakall og flýja undan stórhættulegum sögufróðum mönnum sem eru að leita að sama pappír, en vilja einungis nota hann til ills! Myndin endar svo á svakalegu show-downi inni í gígantísku steinhofi með gildrum og hættum hvarvetna.

Nú er bara ein spurning: Hvorri National Treasure myndanna var ég að lýsa?

Eins og mér fannst fyrri myndin ágætis afþreying, þá var hún ekki alveg nógu áhugaverð fyrir framhald. Hvað þá framhald sem virkar næstum því eins og fáránlega tilgangslaus endurgerð?

En myndin var nú ekki alslæm. Fyrst má nefna það að eins og alvöru blockbuster mynd þá er hún helvíti flott. Allir staðir, öll stönt og öll aksjón lítur helvíti epískt út. Hún er líka (eins og blockbusterar) ansi sniðug og hnyttin, stundum ótrúlega hnyttin. Og þá meina ég 'ótrúlega' as in "ekki sjens" frekar en "fokk já". Þegar þú liggur á brún lífs og dauða (sem í þessu tilfelli reynist vera gígantísk steinhella sem vegar salt á hundgamalli súlu) þá grunar mig að þú sért ekkert ofboðslega mikið að henda one-linerum hingað og þangað. A.m.k. myndi maður alls ekki hlusta á þá og koma með alveg jafn gott comeback. Það bara virkar ekki þannig.

Myndin þjáist einnig soldið fyrir það að vera sjúklega bandarísk, alveg eins og fyrri myndin. Það er svo sem allt gott og blessað í sjálfu sér, en maður bara getur orðið svolítið þreyttur á þessari gríðarlegu föðurlandsást Kanans („The constitution of America - The SINGLE MOST IMPORTANT DOCUMENT IN THE WORLD!!!“ - *blaktandi fáni í bakgrunni*).

Leikararnir sinna þessu svo sem ágætlega, þó að þetta sé ekki beint mest krefjandi hlutverk ársins. Nicolas Cage stendur nokkurn veginn alltaf fyrir sínu, á meðan Diane Kruger (ástkona hans) fór eiginlega bara í taugarnar á mér. Það sama gerði Justin Bartha sem hnyttnasti gaur myndarinnar og eins töff og Jon Voight er venjulega olli hann mér smá vonbrigðum hérna. Ed Harris er reyndar harðari en allt sem vondi sagnfræðingurinn og gerir það ágætlega.

National Treasure : Book of Secrets er svo sem allt í lagi áhorfs en ef maður hefur séð fyrri myndina þá er ódýrara að rifja hana bara upp, því að það breytist eiginlega ekki neitt þar á milli.

* * af 5.