Ég ætla ekki einu sinni að sýna ofangreindri spurningu þá virðingu að svara henni því svarið liggur svo augljóslega fyrir að þeir sem sjá það ekki í hendi sér eru voða mikið að misskilja. Þeir eru a.m.k. að fara á mis við þvílíkan part af kvikmyndaupplifuninni að ég vorkenni þeim meira en ég gagnrýni þá.
Ég er mikill áhugamaður um kvikmyndatónlist og er stoltur eigandi ágætis magns af sándtrökkum, hvort sem ég hef eignast á lögmætan hátt eður ei. Ég er m.a.s. það mikill áhugamaður að ég stefni á að gerast meira en áhugamaður, þ.e.a.s. ég er þegar búinn að sækja um skólavist í LHÍ næsta haust á kvikmyndatónsmíðabraut.
En eins og með kvikmyndir þá eru sum sándtrökkin betri en önnur og það er alls ekki alltaf sem gæði myndar og gæði tónlistar haldast í hendur. T.d. er Lady in the Water frekar misheppnuð mynd en tónlistin er glæsileg og þá er V for Vendetta æðisleg mynd en ég gæti ekki fyrir mitt litla líf raulað stef úr henni (nema þá 1812 forleikinn, en það er líka aðeins annað dæmi). En þetta er kannski ekki alveg nógu gott dæmi, því kvikmyndatónlist sem maður man ekki mikið eftir eða vekur ekki allt of mikla athygli telst oftast til nokkuð góðrar kvikmyndatónlistar. Ég hef a.m.k. venjulega miðað það við að ef þú tekur ekki eftir henni, er hún fín - ef þú tekur eftir henni er hún frábær eða skelfileg. En sem betur fer er afskaplega sjaldgæft að rekast á seinna tilfellið (ég man í augnablikinu bara eftir Das Cabinet des Dr. Caligari.

Dæmi um tónlist sem ég hef tekið eftir er talsvert auðveldara að nefna: Lion King (e. Zimmer), Amélie (e. Tiersen), Jurassic Park & Schindler's List (e. Williams) og nú nýlegast There Will Be Blood (e. Greenwood). En þetta er aðeins örlítið brot af þeim titlum sem mér dettur í hug.
En hvað gerir kvikmyndatónlistin? Hún er venjulega ekki nógu sterk ein og sér til að vekja upp mjög sterkar tilfinningar (það eru þó til undantekningar) en hún er kjörin til þess að auka þau tilfinningalegu áhrif sem myndin á að skapa. Ef við lítum á Jurassic Park sem dæmi, þegar þau eru komin á eyjuna og eru að sjá eðlurnar í fyrsta sinn - afskaplega epískt og tignarlegt atriði. En ég er nokkuð viss um að það væri bara *verulega* kjánalegt ef það heyrðist ekkert nema andköf aðalpersónanna. Það a.m.k. skapar allt aðra stemningu en atriðinu er ætlað að gera. Svo ekki sé minnst á nokkurn veginn *öll* hasaratriði kvikmyndina sem væru óttalega máttlaus án smá tónlistar til að auka stemninguna.
Til dæmis (svo maður noti nú Jurassic Park einu sinni enn):
Þetta er eitt af áhrifaríkari spennuatriðum sem ég man eftir. A.m.k. sem barn var þetta svo taugatrekkjandi að það var engan veginn fyndið og það ætlar enginn að segja mér að það hefði verið jafn spennandi hefði tónlistinni alfarið verið sleppt.
En, það er ekki þar með sagt að viðeigandi tónlist þurfi að vera skellt á öll atriði til að magna þau upp - alls ekki! Cast Away (með Tom Hanks) notast afskaplega lítið við tónlist og svínvirkar það, enda ætlunin að gera hann eins einan og mögulegt er og það er afskaplega erfitt ef voðalega grand og ævintýraleg músík umlykur eyjuna. Og flestar hryllingsmyndir notast gríðarlega mikið við þögn, nema þá gjarnan afskaplega háværa hvelli í bregðuatriðum til að láta manni virkilega bregða, því oftar en ekki er ekki nóg að fá bara skrímsli í andlitið eða einhverja veru skjótast fyrir myndavélina. Þess vegna finnst mér mjög gaman að sjá atriði sem rjúfa þessa hefð örlítið. Til dæmis Chan-Wook Park í stuttmynd sinni Cut (hoppið inn í síðasta þriðjung klippunnar, það er nóg):
Þarna er t.d. enginn hvellur þegar veran fer fyrir myndavélina og finnst mér það skapa meiri taugaspennu sem ég kýs gjarnar fram yfir það að láta bregða mér.
En svo má ekki gleyma dramatíkinni og sorgina sem tónlistin getur vakið upp. Þá er aðallega eitt atriði sem situr svo pikkfast í hausnum á mér að ég efast stórlega um að ég muni nokkurn tímann gleyma því eða jafnvel komast almennilega yfir það: Dauði Mufasa í Lion King.
Þetta er afskaplega sorglegt atriði í sjálfu sér og átakanlegt að horfa á án tónlistar, en með hinni gullfallegu tónlist Hans Zimmer verður þetta sorglegasta atriði sem ég hef nokkurn tímann séð. Tónlistin sumsé magnar upp tilfinningar myndefnisins gríðarlega. Og nú er lagið svo samtengt atriðinu að ég verð nánast klökkur bara af því að hlusta á það. Eins mætti telja upp Schindler's List, Crash o.s.frv.
Tónlist í kvikmyndum, eða skortur þar á í sumum tilfellum, er því algjörlega nauðsynleg svo að tilfinningarnar sem myndunum er ætlað að vekja upp komist fullkomlega til skila og það er ekki vottur af vafa í mínum huga að ef tónlist væri algjörlega sleppt úr kvikmyndum væri listgreinin miklu, MIKLU ómerkilegri.
Að lokum vil ég svo bara benda á frumraun mína við kvikmyndatónlist, sem ég samdi fyrir lokaverkefni bróður míns úr Margmiðlunarskóla Íslands sem er er stutt teiknimynd að nafni „Kúlan“. Hana er að finna hér, smellið svo á tengilinn „Kúlan“ uppi í hægra horni síðunnar og njótið vel.