miðvikudagur, 2. janúar 2008

Uppgjörið

Nú er árið og enda og því góð ástæða til að fara yifr kvikmyndaárið 2007. Hér kemur sumsé stutt yfirlit yfir allar þær myndir sem ég fór á í bíó í fyrra.

1. Children of Men (2.1.2007)
Þvílík byrjun á kvikmyndaárinu! Frábær mynd í alla staði! Clive Owen góður eins og endranær, plottið nokkuð töff og kvikmyndatakan ein sú besta sem ég man eftir. Einnar töku atriðið í lokin þegar Clive Owen er fylgt eftir yfir allan helvítis vígvöllinn og inn í blokkina er bara snilld!
* * * * *

2. Stranger than Fiction (7.1.2007)
Eflaust besta mynd Will Ferrell. Hugmyndin frábær og framkvæmdin mjög góð. "Stranger than Fiction" er fyrir Will Ferrell eins og "Eternal Sunshine of the Spotless Mind" er fyrir Jim Carrey. Stórskemmtileg mynd.
* * * *

3. The Prestige (12.1.2007)
Christopher Nolan kemur enn einu sinni með frábæra mynd. Christian Bale verulega svalur og Hugh Jackman nógu sannfærandi til að ekki einu sinni Dr. Cox gæti ekki fílað hann. Og ekki má gleyma kick-ass plot tvistinu.
* * * *

4. Night at the Museum (21.1.2007)
Fór á hana með litlar væntingar sem voru flest allar uppfylltar. Ekkert stórvirki í kvikmyndasögunni, enda eflaust aldrei plönuð sem eitthvað slíkt. Bara ágætis fjölskylduskemmtun. Varð kannski helst fyrir vonbrigðum með Robin Williams. En maður fyrirgefur honum það og horfir bara aftur á uppistandið hans.
* * *

5. Babel (23.1.2007)
Verulega flott mynd. Verulega hæg, en verulega flott. Alls engin feel-good mynd og að mörgu leyti bara niðurdrepandi. En samt sem áður verulega flott.
* * * *

6. Blood Diamond (28.1.2007)
Fínasta spennumynd. Leonardo Di Caprio er fínn en Djimon Hounsou enn betri. Ágætis afþreying.
* * * 1⁄2

7. Little Miss Sunshine (29.1.2007)
Frábær mynd. Hún er bara svo yndisleg, eitthvað. Karakterarnir svo sympatískir að maður bæði hlær og grætur með þeim. Alan Arkin vel að Óskarnum sínum kominn en ég hefði ekki orðið fúll við að sjá Abigail Breslin fá sinn.
* * * * 1⁄2

8. Dreamgirls (9.2.2007)
Fín, fönký og bara nokkuð skemmtileg. Fyrir hlé. Eftir hlé er hún bara of mikið væl og hvert vælulag of langt. Jennifer Hudson syngur sjúklega vel, hún má eiga það, en maður þolir bara ákveðið magn af RnB krúsídúllum á einu kvöldi. Dreamgirls finnur það magn, gefur svo í og skilur mann eftir í svo miklum drulluútblæstri að manni verður óglatt.
* *

9. Pan's Labyrinth (11.2.2007)
Eftir að hafa séð treilerinn á netinu langaði mig ógeðslega að sjá þessa mynd. Sem ég og gerði. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hún er bara svo flott að öllu leyti. Myndatakan, búningarnir, umhverfið, förðunin, leikurinn, sagan og allur fílíngurinn yfir þessari mynd er til fyrirmyndar. Svona átti Lady in the Water að vera - en tókst bara ekki.
* * * * 1⁄2

10. The Last King of Scotland (25.2.2007)
Ég sá svo fyrir að Forest Whitaker fengi Óskarinn fyrir hana, enda á hann hann alveg skilið. Hann er svo dásamlega sturlaður og kolsnargeggjaður, en samt svo viðkunnanlegur sem Idi Amin að maður vissi ekki alveg hvort maður átti að hata einræðisherrann eða elska manneskjuna. Frábær mynd.
* * * *

11. The Number 23 (5.3.2007)
Óttalega misheppnuð. Grunnhugmyndin hljómaði ágætlega en myndin sjálf var svo klisjukennd og sjúklega idiot-proof að ég móðgaðist næstum því. Jim Carrey hefur valið betri myndir.
*

12. 300 (18.3.2007)
Sjúklega flott, bæði "effect-wise" og "action-wise" en hún skildi ekkert meira eftir sig en það. Klárlega EKKI besta mynd ársins - ólíkt skoðunum lesenda "24 stunda" - en fínasta afþreying.
* * 1⁄2

13. Hot Fuzz (1.4.2007)
Frábær gamanmynd. Simon Pegg og Nick Frost koma með aðra snilld sem gefur Shaun of the Dead ekkert eftir. Myndin verður nokkuð flippuð í lokin, en samt bara nógu flippuð til að verða ógeðslega fyndin. Stórgóð skemmtun.
* * * *

14. Blades of Glory (28.4.2007)
Ekta Will Ferrell gamanmynd - heimskuleg og óttalega ómerkileg í sjálfu sér, en samt sem áður verulega fyndin. Jon Heder er líka ágætur, en Napoleon Dynamite er ennþá hans toppur.
* * *

15. Spiderman 3 (4.5.2007)
Ekta blockbuster trilogíulok - flott og epísk í útliti en óttalegt rusl í raun og veru. Hún var bara óttalegt overkill, eitthvað.
* *

16. Zodiac (20.5.2007)
Var búinn að hlakka lengi til þessarar myndar, enda mikill David Fincher aðdáandi og þegar ég loksins sá hana gekk ég út úr salnum fullkomlega sáttur. Zodiac er bara helvíti góð raðmorðingjarannsóknarmynd.
* * * *

17. Pirates of the Caribbean : At World's End (24.5.2007)
Alveg eins og Spiderman 3, nema hvað Johnny Depp er miklu skemmtilegri en Tobey Maguire.
* * 1⁄2

18. 28 Weeks Later (1.6.2007)
Verulega töff og alls ekki síðri en "28 Days Later". Upphafsatriði myndarinnar er til að mynda ótrúlega svalt og gefur mér ennþá gæsahúð þegar ég hugsa um það. Pottþétt vírusfaraldursmynd.
* * * 1⁄2

19. Das Leben Der Anderen (7.6.2007)
Snilld. Í henni er enginn hasar, enginn bilaður húmor og voða lítill kynþokki (hóran sem hann sefur hjá er ekki beint gella) en hún er samt frábær. Vel að Óskarnum sínum kominn og klárlega ein besta mynd ársins.
* * * * *

20. Ocean's Thirteen (10.6.2007)
Ég hef alltaf haft gaman af myndum sem fjalla um eitthvað úthugsað rán eða eitthvað þvíumlíkt. Þess vegna líkaði mér vel við Ocean's Eleven og illa við Ocean's Twelve. Ocean's Thirteen stendur nær Ocean's Eleven að gæðum.
* * *

21. The Invisible (21.6.2007)
Lítt þekkt mynd enda ærin ástæða fyrir því. Hún er bara ekkert góð. Táningsstrákur er næstum myrtur og skilinn eftir í skógi og andi hans fer um bæinn í von um að láta bjarga líkama sínum. Hljómaði vel í fyrstu, en leikurinn og handritið er bara ekki neitt neitt og dregur alla myndina niður í svaðið.
* 1⁄2

22. Shrek the Third (22.6.2007)
Bara nokkuð skemmtileg. Ekki eins frábær og fyrsta myndin en - já - bara nokkuð skemmtileg.
* * 1⁄2

23. Evan Almighty (4.7.2007)
Drasl. Var svosem sniðug fyrir hlé, en varð bara væmin og of kristileg eftir hlé. Eins og ég var bjartsýnn...
*

24. The Lookout (8.7.2007)
Vanmetin mynd, að mínu mati. Var stutt í bíó og bara í litlum sölum en var bara furðulega góð. Jeff Daniels var sérstaklega flottur - alveg þar til í lokasenunum. Þá er hann bara kjánalegur og klisjukenndur.
* * *

25. Die Hard 4.0 (10.7.2007)
John McClane er mættur aftur - hnyttnari, ýktari og fjölskylduvænni en nokkru sinni fyrr! Die Hard mynd sem inniheldur hvorki blóð né blótsyrði er ekki Die Hard mynd! Hann fékk ekki einu sinni að segja línuna sína í friði! Þeir drulluðu einhverjum helvítis skothvelli inn í hana: „Yibbee-ka-yay, Mother f*BANG*er!“ - það er bara svindl.
Ágætis hasarmynd, en bara svik við Die Hard málstaðinn.
* * 1⁄2

26. 1804 (15.7.2007)
Flott og ógnvekjandi. Báðir endarnir eru m.a.s. góðir (já, þeir eru 2 - sá einn í bíó, annan í DVD-útgáfunni), en það eru einmitt oftast endarnir sem eyðileggja svona myndir.
* * * 1⁄2

27. Transformers (22.7.2007)
Flottari en andskotinn og nokkuð fyndin, en skilur ekkert eftir sig. Alvöru sumarsmellur.
Með vélmennum.
Og sjittlód af sprengingum.
* * *

28. Planet Terror (6.8.2007)
Yndislega blóðug og ógeðsleg og æðislega over-the-top. Stórskemmtilegur djókur á vírusfaraldursmyndir.
* * * *

29. The Bourne Ultimatum (23.8.2007)
Ekki eins góð og sú fyrsta, en samt helvíti góð. Skemmtileg undantekning frá trilogíulokareglunni.
* * * 1⁄2

30. Astrópía (26.8. 2007)
Fór inn með litlar væntingar og fór út bara nokkuð sáttur. Ég átti alls ekki von á að íslensk mynd gæti púllað einhvern ævintýraheim. Ég hafði greinilega rangt fyrir mér. Verst bara hvað það var helvíti dýrt á hana...
* * 1⁄2

31. Disturbia (2.9.2007)
Greinileg stæling á "Rear Window" eftir Hitchcock en samt sem áður þrususpennandi. Skemmtilega uppfærð til nútímaaðstæðna og David Morse er ferlega creepy sem sleazy, sjarmerandi, morðóði nágranninn.
* * *

32. Knocked Up (9.9.2007)
Fyndin og ekki eins vitlaus og við var að búast. Alveg eins og maður upplifði með "40 Year Old Virgin". Hin fínasta kómedíurómantík.
* * *

33. Mr. Brooks (16.9.2007)
Kevin Costner er verulega svalur og William Hurt engu síðri. Demi Moore er aftur á móti hálfpirrandi. Sagan töff, lúkkið svalt og leikurinn góður.
* * * *

34. Veðramót (19.9.2007)
Ágætis drama. Eins og svo oft áður eru margir íslensku leikaranna ósannfærandi (nema Jörundur og Hilmir - og svo að sjálfsögðu Baldvin Kári), en myndin er samt ekki svo slæm. Krakkarnir eru einnig ágætir í sínum hlutverkum. Ekki allir, þó...
* * 1⁄2

35. Shoot 'em Up (22.9.2007)
Ekkert nema snilld, allan fokking tímann. One-linerar eru alls staðar og öllum lögum eðlisfræðinnar er grimmilega misþyrmt til þess eins að gera Clive Owen svalari en Chuck Norris og Steven Seagal til samans. Þarf ég að segja meira?
* * * * 1⁄2

36. Superbad (1.10.2007)
Nokkuð fyndin mynd, verð ég að segja. Ekkert stórvirki, en ég efast líka um að hún hafi verið ætluð sem eitthvað slíkt. Hún átti eflaust að koma manni til að hlæja og skemmta sér í tæpa tvo tíma og það tókst barasta mjög vel.
* * * 1⁄2

37. Helvetica (3.10.2007)
Súrasta bíóferð lífs míns. Ég fór bara á þessa mynd til þess að geta sagst hafa horft á tveggja tíma heimildamynd um leturgerð. Hún var samt furðulega áhugaverð á köflum. Hina kaflana var hún eiginlega bara leiðinleg. Hún er nú einu sinni bara um font...
* *

38. Auf der anderen Seite (7.10.2007)
Hin RIFF-myndin sem ég sá á árinu og öllu áhugaverðari en Helvetica. Nokkuð flott og á köflum átakanleg mynd með flottum leikurum og góðu handriti.
* * * 1⁄2

39. 3:10 to Yuma (10.10.2007)
Russell Crowe og Christian Bale leika (gagnkynhneigða) kúreka með byssur. Þarf maður meira?
Já, en 3:10 to Yuma inniheldur það mest allt. Fín saga, góður leikur og flott lúkk.
* * * 1⁄2

40. The Kingdom (14.10.2007)
Eins og vitur maður mælti einu sinni: „"The Kingdom" er "Syriana" fyrir fífl“, og það er svolítið til í því. Ófrumlegir karakterar og fyrirsjáanlegt plott mæta ágætis hasarsenum og fínni tónlist í afskaplega meðalgóðri mynd.
* * 1⁄2

41. Michael Clayton (4.11.2007)
George Clooney er verulega flottur í góðri samsærislögfræðirannsóknarkvikmynd, sem því miður er aðeins of langdregin. Ekki mjög - alls ekki - en bara smá.
* * *

42. The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford (11.11.2007)
Það eina sem er lengra en titillinn er myndin sjálf. Hún er samt sem áður mjög flott (bæði sjónrænt og efnislega) og Brad Pitt og Casey Affleck standa sig báðir með prýði. Það er ekki spurning hver er virkilega góði "Affleck-inn"...
* * * *

43. Wedding Daze (18.11.2007)
Hugmyndin að plottinu fannst mér voða sniðug en utan hennar hefur þessi mynd ekkert sem maður hefur ekki séð oft áður. Það er þó ekki þar með sagt að mér leiddist hún - alls ekki. Ég myndi bara ekki vilja eignast hana á DVD.
* *

44. Dan in Real Life (25.11.2007)
Þessa mynd fílaði ég í botn. Hún var svo sæt en samt svo pínlega sorgleg. Maður finnur virkilega til með persónu Steve Carell, sem á fantagóðan leik hérna. Verst bara hvað hún var ögn fyrirsjáanleg á köflum.
* * * *

45. Hitman (30.11.2007)
Leikirnir eru miklu betri en myndin, sem hefur þó sinn sjarma líka. Aðallega bardagaatriðin.
Ok, *bara* bardagaatriðin.
Ég er líka bara ennþá ógeðslega feginn því að Vin Diesel lék ekki Agent 47.
* *

46. Run, Fat Boy, Run (16.12.2007)
Simon Pegg er náttúrulega alltaf æði í mínum augum eftir "Shaun of the Dead" og "Hot Fuzz". Þessi er alls ekki jafngóð. Þetta er bara sniðug og hugljúf feel-good mynd. Stundum þarf maður bara að sjá einhverja svoleiðis.
* * 1⁄2

47. I Am Legend (29.12.2007)
Verulega töff og nokkuð ógnvekjandi, en skrímslin voru bara of óraunveruleg til að ég gæti fílað myndina í botn. Will Smith stendur þó fyrir sínu.
* * * 1⁄2

48. We Own the Night (30.12.2007)
Afskaplega flöt mynd, eitthvað. Það eru bara nokkrir litlir hápunktar á víð og dreif um myndina en á milli þeirra er hún voða stefnulaus.
* *

Niðurstöður

Besta mynd ársins:

Das Leben der Anderen

Fyndnasta mynd ársins:
Shoot 'em Up

Sorglegasta mynd ársins:
I Am Legend

Lélegasta mynd ársins:
The Number 23

Vonbrigði ársins:
Evan Almighty


Jahá - þar hafiði það.
365 dagar, 48 myndir og yfir 50.000 krónur.
Sjitt....